145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

orð þingmanns -- lengd þingfunda.

[10:33]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fundi var slitið á fjórða tímanum í nótt og fundur hófst í allsherjar- og menntamálanefnd klukkan hálfníu í morgun. Það leið fimm og hálfur tími frá því að þingfundi var slitið þar til þingmenn áttu að vera mættir til starfa í nefnd.

Hér er dögum saman búið að bera fram hógværar spurningar til forsetanna sem sitja hér á stóli um hver verkáætlunin sé. Það er talað inn í næturnar. Engin svör berast og menn sitja eins og nátttröll á stóli bak við einhvern kjánalegan þagnarskjöld og neita að upplýsa þingmenn um hvað þeim sé ætlað að gera, hvernig verkáætlun þeirra eigi að líta út.

Virðulegi forseti. Þingið setur svo niður við þessi vinnubrögð, þetta er orðið svo lítilsvirðandi fyrir þennan vinnustað að það tekur engu tali lengur.