145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

orð þingmanns -- lengd þingfunda.

[10:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur hefur verið kallaður margt um dagana en nátttröll er alveg nýtt. Þetta er fyrir sögubækurnar.

Ég ætlaði bara að árétta við forseta að hér voru gagnlegar umræður fram í nóttina í gærkvöldi. Það var gleðisvipur á hverju andliti og við fengum mjög góðar ræður, góð innlegg, málin skýrðust mjög og ég hvet til þess að það verði haldið áfram inn í þá nótt sem nú er fram undan (Gripið fram í.) þannig að fólk geti tjáð sig hér óheft. Ég vænti þess að við munum öll hafa gagn af því og ánægju um leið. Ég fagnaði því sérstaklega í gærkvöldi að með okkur var hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem hefur snúið til baka eftir stuttan krankleik. Það munaði um innlegg hans hér í gærkvöldi og ég hlakka til að eiga hér fleiri næturfundi til að varpa ljósi á það stóra mál sem við eigum við sem er fjárlög ríkisins.