145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

orð þingmanns -- lengd þingfunda.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem aðallega hingað til að lýsa furðu minni. Ég taldi víst að hv. þm. Jón Gunnarsson ætlaði að lýsa iðrun vegna ummæla sinna um Björk Guðmundsdóttur. Ég hélt satt að segja að hann ætlaði að gera það því að hann hefur haft uppi dylgjur um að sú ágæta listakona borgi ekki skatta og sé daufleg til augnanna eins og það var orðað.

Mér fannst ákveðið hámark á súrrealismanum að í stað þess krafðist hv. þingmaður afsökunarbeiðni frá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Ég verð að segja að þar finnst mér hv. þingmaður ekki forgangsraða hlutunum rétt. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með orð hans hér því að ég hélt satt að segja í alvöru að hann hefði séð eftir þessum dylgjum sínum. Í staðinn ákveður hann að ráðast á hv. samþingsmenn sína og krefjast afsökunarbeiðna frá þeim fyrir ummæli þeirra um sig. Þetta er undarlegt, herra forseti.