145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

orð þingmanns -- lengd þingfunda.

[10:40]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég hef verið á þingi á þriðja ár og með einhverjum hætti starfað með nærri öllum þeim þingmönnum sem hér eru, 62, annaðhvort í nefndum, í starfi utan þings í tengslum við þingið eða á erlendum vettvangi. Sá hópur sem hér starfar er afskaplega flottur og hæfur. Hér er margt skynsamt, heiðarlegt, duglegt, sáttfúst og gott fólk sem vill koma góðu til leiðar fyrir Ísland.

En hvað gerist svo þegar við komum inn í þennan blessaða þingsal? Þá er bara eins og menn breytist úr því sem þeir eru í raun og veru í hjarta sér og í eitthvað allt annað. Mér finnst ofboðslega leitt að horfa upp á þetta.