145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum á undanförnum dögum orðið vitni að miklum vanda ríkisstjórnarflokkanna vegna þeirrar stöðu sem þeir eru komnir í þegar þeir standa gegn tillögum okkar um að aldraðir og öryrkjar fái kjarabætur á sama hátt og fólk á almennum vinnumarkaði. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lent í slíkum ógöngum við að réttlæta þessa afstöðu stjórnarmeirihlutans að hann er kominn út á þann hála ís að gera greinarmun á fólki eftir því hvort það vinnur eða þarf að reiða sig á bætur, og lætur að því liggja að þeir sem vinna fyrir sér þurfi að hafa áhyggjur af því ef lífeyrisþegar fái jafn mikið og þeir. Hann sagði hér í gærmorgun, í svari við fyrirspurn minni, að fjölgun öryrkja væri til dæmis sjálfstætt og sérstakt vandamál og viðfangsefni á Íslandi og allt of margir ungir karlmenn festust utan vinnumarkaðar eftir að hafa dottið úr námi eða hrakist úr vinnu einhverra hluta vegna og smám saman endað á örorkubótum vegna andlegra veikinda.

Nú er allt þetta rétt og satt hjá hæstv. fjármálaráðherra. En hvað hafa þessar staðreyndir með fjárhæðir bóta að gera til allra lífeyrisþega í landinu? Þessar staðreyndir ættu að kalla á aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að draga úr félagslegri einangrun og auka tækifæri fyrir fólk til mennta og til að vera virkt í samfélaginu. En þess sér ekki stað í þessu fjárlagafrumvarpi.

Ef maður greinir nú tölurnar áfram er heildarfjöldi lífeyrisþega í landinu 47.700 á árinu 2014. Þar af eru ellilífeyrisþegar rúmlega 31.300 og örorkulífeyrisþegar rúmlega 16.300. Allir örorkulífeyrisþegar, sama hverju nafni nefnast, hvort sem er af líkamlegum orsökum eða andlegum, vegna þroskaskerðingar, undir 30 ára aldri, af báðum kynjum, eru einungis 1.550 manns. Jafnvel þótt öllu því fólki hefði einhverra hluta vegna, með einhverjum töfrum, tekist að plata sig inn á örorkulífeyriskerfið, (Forseti hringir.) mundi sú staðreynd þá réttlæta það að halda aftur af kjörum allra annarra lífeyrisþega í landinu? Það er dapurlegt þegar fjármálaráðherra landsins byggir málflutning (Forseti hringir.) sinn á fordómum af þessu tagi, gengur erinda þeirra sem tala niður opinbera velferðarþjónustu og ýjar að því að þeir (Forseti hringir.) sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga séu byrði og afætur á samfélaginu. Það er dapurlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna