145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Það finnst eflaust mörgum nóg komið af umræðum um fjárlög. Miðað við stemninguna hér í þingsal í morgun, bæði undir liðnum um fundarstjórn forseta og í þessum ágæta lið um störf þingsins, mætti ætla svo. En ég er ekki á þeirri skoðun. Mér finnst umræðan mjög góð. Ég segi það hér og nú, hún hefur verið virkilega góð. Þetta er stærsta stefnumál hverrar stjórnar.

Kosturinn við umræðuna sem ég vil síður líkja við keppni — og ef svo er þá mundi ég meina það í jákvæðum skilningi, ekki í einhverjum metamælingum eins og var hér í umræðunni í gær. Þegar við förum niður á hvað lægsta planið, þá vill það gerast, þegar leikur stendur sem hæst, ef ég held mig við þá stemningu, að veruleikinn afhjúpast.

Hér fyrir utan er hópur öryrkja sem mætir hér hvern dag að berjast fyrir sínu. Ég trúi því ekki að nokkur maður í þessum sal sé ekki tilbúinn að hlusta á það fólk og ræða við það fólk og leita leiða til að bæta kjör þessa fólks. (ÖS: Hvað hefur þú gert til þess?) Ég stend hér og er að ræða það. Það er vettvangurinn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þess vegna tala ég um það.

Það sem gerir þetta mál að einhverju leyti erfitt er að staða þessa hóps innbyrðis er mjög misjöfn. Ég hef ekki enn sem komið er séð nægjanlega skýrar upplýsingar um það hvernig hægt er að beina fjármunum til þess hóps sem sannarlega þarf mest á því að halda.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna