145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýgert samkomulag um loftslagsmál í París er til þess að vekja mönnum bjartsýni. Þar komu saman nokkur hundruð af mestu ráðamönnum í heimi og til varð markmið um að halda þeirri hlýnun sem er við blasandi á næstu áratugum í kringum eina og hálfa gráðu. Þetta er mjög háleitt markmið og það er margt eftir. Menn þurfa sjálfir hver á sinni heimaslóð að taka til og gera áætlanir um hvernig þeir hyggjast ná þessu markmiði. Ég held að það verði út af fyrir sig ekki mikið vandamál, ef menn eru einlægir í því sem þeir skrifuðu undir í París þá munu þeir taka á því máli.

Það sem ég vildi annars leggja sérstaka áherslu á er að samningur þessi er náttúrlega afrakstur af margra ára samningaferli sem útheimtir mikla vinnu. Svo vill til að umhverfis- og auðlindaráðuneyti okkar er fámennt ráðuneyti eins og mörg önnur hér og þessi vinna hefur hvílt á herðum örfárra manna, ekki aðeins að halda á lofti hagsmunum Íslands heldur koma fram með sértæk verkefni eða markmið sem Íslendingar tala fyrir, svo sem eins og endurheimt votlendis og kolefnisbindingu bæði í jörð og í skógum. Ég tel sérstaka ástæðu til að óska umhverfis- og auðlindaráðherra til hamingju með þann hóp sem hefur staðið að baki henni við þessa samningagerð og ég verð að nefna þar tvö nöfn, þarna hafa staðið framarlega í flokki þeir Hugi Ólafsson skrifstofustjóri, sem var formaður sendinefndar okkar á loftslagsráðstefnunni í París, og Stefán Einarsson sem fóru fremstir meðal jafningja í þessu mikilsverða máli.


Efnisorð er vísa í ræðuna