145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:09]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég alveg að skipta um umræðuefni og snúa mér að skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar í samgöngu- og raforkumálum. Við sáum í fjölmiðlum nýlega viðtal við forstjóra Landsnets í tilefni af því að 30 möstur Landsnets brotnuðu niður í óveðrinu mikla sem gekk yfir landið ekki alls fyrir löngu. Mest varð tjónið á Vestfjörðum með þeim afleiðingum að rafmagn fór þar af og er núna skammtað og keyrt inn á kerfið með dísilvélum og varaaflsstöðvum þar sem viðgerð er ekki lokið.

Forstjóri Landsnets sá ástæðu til að vekja athygli á því sem fyrirtækið hefur reyndar verið að benda á í fjöldamörg ár, mikilvægi þess að styrkja flutningskerfið. Hann benti á þá tillögu Landsnets að leggja línur í gegnum Dýrafjarðargöngin þá og þegar er þau verða að veruleika. Það verður auðvitað bylting í raforkumálum Vestfirðinga þegar sú tilhögun kemur upp vegna þess að þar með verður búið að verja línurnar fyrir þeim óveðursofsa sem gengur yfir heiðarnar og fjalllendið þegar þannig ber við.

Alþingi hefur sjálft ákvarðað stefnu um lagningu flutningslína í jörð þannig að ekkert ætti að vera þessu til fyrirstöðu. Hins vegar hlýtur það auðvitað að vekja umhugsun og athygli þegar í ljós kemur að áform um Dýrafjarðargöng verða ekki að veruleika fyrr en í fyrsta lagi árið 2017 þegar á að bjóða göngin út. Þau hafa verið tilbúin til útboðs í meira en fimm ár. Eftir hverju er verið að bíða þegar það er viðblasandi að þarna er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, leysa stórkostlegan byggðavanda og stórbæta aðstöðu ekki bara atvinnulífsins sem reiðir sig á orkuflutninga heldur líka öll búsetuskilyrði á svæðinu? (Forseti hringir.) Þetta er skeytingarleysi sem mér finnst fullkomlega ámælisvert og ástæða til að ræða undir þessum lið.


Efnisorð er vísa í ræðuna