145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Þátttaka mín og annarra þingmanna héðan frá Alþingi í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í síðustu viku er með því ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í og orðið vitni að frá því að ég hóf afskipti af stjórnmálum. Niðurstaðan er sigur og glæsileg niðurstaða sem allir geta verið ánægðir með, það er heimurinn sem sigrar með þessari niðurstöðu og mikið ánægjuefni að hafa fengið að komast í snertingu við þá vinnu sem var í aðdragandanum að samningunum sem náðust um helgina.

Það er hins vegar svolítið svekkjandi svo ekki sé fastar að orði kveðið að metnaður Íslands og íslenskra stjórnvalda í þessum efnum finnst mér vera afskaplega takmarkaður og þar ríkir ákveðin hógværð fram úr góðu hófi að mínu mati. Ísland á auðvitað eftir að útfæra sóknaráætlun sína betur í loftslagsmálum en það er kannski til marks um það hversu ómarkviss markmið eða metnaður íslenskra stjórnvalda er í þessum efnum að hæstv. umhverfisráðherra segir í samtali við Fréttablaðið í byrjun vikunnar að erfitt sé að segja til um hvaða breytingar íslensk fyrirtæki og almenningur þurfi að gera til að Ísland nái eigin markmiðum.

Mér finnst ástæða til að hvetja okkur öll til dáða í þessum efnum og velta fram ákveðnum hugmyndum sem gætu gert markmiðin skýrari og metnaðarfyllri eins og að lýsa því yfir að við ætlum að stefna að kolefnishlutleysi eins og t.d. Svíar hafa gert fyrir árið 2050. Síðan gætum við tekið borgina Ghent í Belgíu okkar til fyrirmyndar sem hefur lýst því yfir að einn dagur í viku sé kjötlaus dagur, Ísland gæti orðið fyrsta landið (Forseti hringir.) til að lýsa því yfir að á einum degi í viku borði enginn kjöt eða stefnt sé að því að draga úr kjötneyslu. Guð veit að margir hér hefðu gott af því.


Efnisorð er vísa í ræðuna