145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að tala um Landspítala. Á næsta ári á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að verða raunniðurskurður á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, stærstu stofnun heilbrigðiskerfisins og íslenska ríkisins. Á Landspítalanum er veitt bráða- og lífsbjargandi þjónusta. Hann er kennslusjúkrahús og héraðssjúkrahús höfuðborgarsvæðisins. Þar vantar fé á næsta ári til að mæta aukinni þjónustuþörf, launahækkunum vegna kjarasamninga og til bráðnauðsynlegasta viðhalds. Samfylkingin, VG, Björt framtíð og Píratar leggja til að veittir verðir tæpir 3 milljarðar í að mæta þessari brýnu þörf.

Við í Samfylkingunni viljum líka tryggja uppbyggingu nýrra bygginga Landspítalans og víkka út hlutverk hans. Við viljum að Landspítalinn verði ábyrgur fyrir að veita sérfræðiþjónustu úti á landi en í dag fær fólk á landsbyggðinni sérfræðiþjónustu lækna þegar læknunum hentar en ekki í samræmi við þörf íbúanna.

Við í Samfylkingunni höfnum þróun heilbrigðiskerfisins í þágu sérhagsmuna ákveðinna heilbrigðisstétta. Við eigum öll heilbrigðiskerfið saman. Það á að vera í fremstu röð og þjóna okkur öllum óháð efnahag og búsetu. Fyrsta skrefið er að tryggja sjúkrahúsinu nægilegt rekstrarfé á næsta ári. Varðstaða minni hlutans í þinginu í þessari fjárlagaumræðu snýst meðal annars um það.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna