145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram á síðustu dögum um fjárlagafrumvarpið hefur verið bæði skemmtileg og fróðleg. Ég held að ég hafi sjaldan tekið þátt í umræðu þar sem hafa verið jafn líflegar rökræður millum manna um gildi fjárlagafrumvarpsins og ýmsar þær tillögur sem hér hafa komið fram. Mig langar í upphafi ræðu minnar sérstaklega að þakka hv. þingmönnum stjórnarliðsins sem venju fremur hafa tekið þátt í umræðunni og margir flutt ákaflega fínar ræður sem hafa upplýst mig um stöðuna, ekki aðeins um afstöðu flokka þeirra heldur líka varpað upp fyrir mér nýju ljósi á ýmis mál sem við höfum til umræðu. Ég sakna þess þegar ég horfi yfir þennan ágætlega skipaða sal að ég sé ekki hv. þm. Karl Garðarsson vegna þess að ég ætlaði að hrósa honum fyrir ræðu sem hann flutti fyrir nokkrum dögum. Eins og ég reyndi að gera í ræðu minni á laugardag drap hann á ýmsum þáttum sem ekki hafa fengist til umræðu hér. Ég nefni sérstaklega húsnæðismálin sem ég tel ákaflega mikilvæg og algjörlega skorta á að séu rædd hér í umræðunni. Sömuleiðis nefni ég ljósleiðaravæðinguna sem mér fannst hv. þingmaður, og reyndar hv. þm. Willum Þór Þórsson, ræða með ákaflega jákvæðum og upplýsandi hætti. Í þriðja lagi fór hv. þingmaður nokkrum orðum, alveg eins og ég á laugardag, um eitt af stóru málunum sem vantar algjörlega í framtíðarsýn þessa frumvarps, málefni aldraðra þegar horft er til framtíðar. Þjóðinni fleygir sem betur fer fram hvað heilbrigðistækni varðar og við lifum öll lengur, verðum eldri, og höfum sökum þess meiri lífsgæði. Það þýðir hins vegar að innan skamms mun þeim hópi sem er yfir 80 ára gamall fjölga mjög hratt og það þýðir í reynd að við þurfum að taka til óspilltra málanna og byggja að minnsta kosti á hverju ári sem svarar til eins og hálfs hjúkrunarheimilis til að kynslóð minni og öðrum nálægt mér í aldri geti liðið þokkalega í ellinni. Fyrir þetta ætlaði ég að hrósa hv. þm. Karli Garðarssyni en vitaskuld er hann ekki hér fremur en svo margir þingmenn stjórnarliðsins.

Harðar deilur hafa staðið um þetta fjárlagafrumvarp og ekki að ófyrirsynju, herra forseti. Ástæðan er vitaskuld sú að núna er verið að leggja fram fjárlagafrumvarp við þær aðstæður þegar störf fyrri ríkisstjórnar, ágæt störf þessarar ríkisstjórnar, hafa byggt undir það sem bankastjóri Landsbankans hefur kallað blússandi góðæri. Við þær aðstæður væri hægt að taka til hendinni ef tekjustofnar ríkisins væru styrktir og beittir til þess annars vegar að greiða niður nafnverð skulda sem ekkert hefur gengið í tíð þessarar ríkisstjórnar og hins vegar að ráðast í að mæta uppsafnaðri fjárfestingarþörf í innviðum ríkisins. Þetta eru þau mál sem vitaskuld hafa verið hér undir vegna þess að við erum með sérstakar aðstæður, þetta er fyrsta fjárlagafrumvarpið sem er lagt fram þegar segja má að Ísland sé að fullu og öllu siglt út úr kreppunni sem hefur verið sameiginlegt átak okkar allra síðustu sjö árin að vinna gegn. Umræðan hefur líka markast af því að einmitt í tilefni af því að nú er borð fyrir báru, eða ætti að vera það, hefur stjórnarandstaðan sameinuð lagt fram ítarlegri tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpinu en nokkru sinni fyrr. Hún hefur sömuleiðis sýnt fram á hvernig hægt er að fjármagna þær. Engin þessara tillagna hefur hlotið náð fyrir augum stjórnarmeirihlutans, enginn úr stjórnarmeirihlutanum hefur kvatt sér hljóðs hér til að ræða eina einustu af 33 tillögum stjórnarandstöðunnar.

Þetta er í reynd kjarni deilunnar á þinginu, þ.e. fálæti stjórnarmeirihlutans gagnvart minni hlutanum. Það má segja að þetta hafi kristallast hér í gær þegar hæstv. forsætisráðherra bókstaflega orgaði yfir þingheim að hann mundi sjá til þess að ekki yrði stafkrók breytt í fjárlagafrumvarpinu. Hvernig má það vera, herra forseti, að þegar stjórnarandstaðan leggur fram 33 vel undirbúnar tillögur er stjórnarmeirihlutinn og hæstv. forsætisráðherra ekki reiðubúinn að ræða eina einustu? Þetta held ég að stafi af því að hér hefur á allra síðustu árum orðið ákaflega dapurleg þróun sem er undirrót þeirrar stöðu sem ítrekað skapast á Alþingi Íslendinga þar sem menn vegast á gráir fyrir járnum. Ég kalla þetta framsókn ráðherraræðisins. Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hæstv. forseta að eitt af því sem okkur var bókstaflega uppálagt af rannsóknarnefnd Alþingis að læra af hruninu var að þingið tæki sig saman og tæki sér meira vald, að það sliti sig frá undangengnu ráðherraræði tíu ára þar á undan. Það tókst þinginu á skömmum tíma. Alþingi varð miklu sjálfstæðara, hafði sterkari áhrif á fjárlagafrumvarp og laut minna valdi framkvæmdarvaldsins. Þess vegna er ég sammála hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að þá stöðu sem kemur ítrekað upp á Alþingi Íslendinga má rekja til þess hvernig stjórnarskráin er. Það þarf að skerpa á þrískiptingu valdsins í samfélaginu. Það þarf að gera framkvæmdarvaldinu algjörlega ljóst að það lýtur löggjafanum. Það getur ekki komið hingað og vaðið yfir þingið á skítugum skónum eins og hæstv. forsætisráðherra gerir þegar hann orgar yfir þingið að ekkert mark verði tekið á vilja þess, ekkert hlustað á það sem kynni að verða niðurstaða þingsins. Þetta vildi ég segja, herra forseti, í upphafi ræðu minnar.

Menn deila um réttmæti þess að þingmenn notfæri sér málfrelsi sitt til að taka á þeim málum sem skipta máli í samfélaginu. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég læt ekki hæstv. forsætisráðherra skipa mér fyrir, skipa mér að þegja bara af því að honum, sem aldrei nennir að koma til þings, hentar ekki að sinna sínum þingskyldum. Hér hafa hv. þingmann verið og varpað fram spurningum til ráðherra og handhafa framkvæmdarvaldsins. Og hver hefur niðurstaðan orðið? Hvað gerðist í gær þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson krafðist þess að hæstv. menntamálaráðherra kæmi til þings til að ræða málefni Ríkisútvarpsins? Jú, einhvern tímann um miðja nótt hunskaðist hingað hæstv. menntamálaráðherra en hann þrumdi í sæti sínu og sýndi þinginu þá óvirðingu að svara í engu einni einustu spurningu sem til hans var beint.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir varpaði til hans þremur skýrt afmörkuðum spurningum og það kom ekki svar við neinni þeirra. Hvað sjáum við marga hæstv. ráðherra á ráðherrabekkjum núna? Engan. Ekki einn einasti hæstv. ráðherra nennir að hafa fyrir því að sinna þingskyldum sínum hér og taka þátt í umræðum um þann part fjárlagafrumvarpsins sem varðar viðkomandi fagsvið.

Er hæstv. heilbrigðisráðherra enn á dögum? Hefur hann sést hér á síðustu dögum? Já, hann rak örstutt inn sitt fallega norðlenska nef í gær en að öðru leyti hefur hann ekki verið hérna. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið upptekinn við að fara í slíkar felur að það er ekki til sá radar í öllum heiminum sem getur fundið hann fyrir Alþingi Íslendinga. Hann þorir ekki í umræðuna. Þau mál sem hér hafa verið undir og sem mestar deilur eru um varða þó einmitt hann og hans málaflokk.

Þrjú mál valda því að stjórnarandstaðan tregðast við að láta af þeirri umræðu sem hún hefur haft hér uppi. Ég gæti bætt því við, herra forseti, að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem aldrei þessu vant lætur sjá sig í þingsal þegar verið er að ræða fjárlagafrumvarpið sýndi þinginu heldur ekki þann sóma að taka þátt í að ræða fjárlagafrumvarpið í gær. Manneskjan sem heimtaði næturfund til að hægt yrði að ræða fjárlagafrumvarpið var heima hjá sér, svaf á sínu græna eyra, nennti ekki að sinna þingskyldum sínum. Þannig er virðing hennar fyrir því sem hér fer fram.

Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni að þrír málaflokkar sem eru hér undir hefðu virkilega kveikt funann í fólki. Það eru í fyrsta lagi málefni Ríkisútvarpsins sem hér hafa ekki fengist rædd við hæstv. menntamálaráðherra. Það eru málefni Landspítalans sem hv. þingmenn stjórnarliðsins virðast skammast sín svo fyrir viðurgjörninginn við að þeir leggja ekki í umræðu. Hv. þm. Karl Garðarsson sem ég hef hrósað fyrir málefnalega ræðu sem hann flutti hér um daginn hefur hins vegar ekki verið mjög málefnalegur þegar hann hefur skrifað um Landspítalann og farið með rangar tölur, enda er það sláandi að þegar rætt er við hv. þingmenn um þessi mál leka þeir allir úr salnum. Hér er ekki nokkur þeirra manna sem hefur haldið fram röngum upplýsingum um Landspítalann vegna þess að þeir þora ekki að koma hingað og standa fyrir máli sínu. Hv. þm. Karl Garðarsson sagði til dæmis í opinberum pistli í gær að orðið hefði 30% hækkun á framlögum til Landspítalans frá 2012 til 2015. Þetta er rangt. Það er ekki hægt að sýna fram á það með tölum að þessi hækkun hafi orðið. Vitaskuld hefur orðið hækkun, herra trúr, frá þeim tíma þegar við vorum blóðug upp fyrir herðar í niðurskurðinum miðjum. Þá átti Ísland engan annan kost. Þá blasti hér við gap ginnunga í ríkisfjármálum og menn urðu að grípa til ákaflega erfiðra ráða. Menn áttu stundum ekki auðveldar ferðir upp í ræðustól Alþingis til að verja þær aðgerðir. Menn áttu þá ekki jafn ánægjulegar umræður og þegar hægt er að sýna fram á blússandi góðæri.

Rétt er það hjá hv. þm. Karli Garðarssyni að framlögin hafa sannarlega aukist frá því sem í botni var, en fjarri því að hægt sé að segja að þau hafi aukist um 30%. Nú kann vel að vera að hv. þm. Karl Garðarsson sé góður í reikningi, en ég vísa honum þá á reikning stærðfræðiprófessors sem birtur var í sama fjölmiðli og hann birti vitleysu sína fyrir nokkrum dögum. Rétt skal vera rétt, herra forseti.

Núverandi ríkisstjórn hefur sannarlega tekið ágætlega á varðandi það að hefja viðsnúning Landspítalans, en það munar verulega miklu á því sem þyrfti að vera. Þegar við réðumst í hinn erfiða niðurskurð á Landspítalanum var það alltaf með því fororði að samstundis og betur tæki að ára mundi ríkisstjórnin, við eða aðrir, ráðast í það að byggja spítalann upp. Það hefur ekki gerst með nægilega góðu lagi. Í dag er það þannig að þegar forstjóri Landspítalans kom á fund formanns fjárlaganefndar og fékk þann viðurgerning sem þinginu var til skammar og hér hefur töluvert verið til umræðu, var náttúrlega hv. formanni fjárlaganefndar til ævarandi hneisu, sýndi hann fram á það með mjög sterkum rökum að það vantaði 2,9 milljarða til að halda í horfinu frá síðasta ári. Rök hrökkva hins vegar af hv. formanni fjárlaganefndar eins og hripandi vatn af gæs. Það hefur reynslan sýnt.

Að sönnu eru fjárframlög til rekstrar á árinu 2015 samkvæmt fjárlögum 11% lægri en þau voru á síðasta árinu fyrir hrun, þ.e. 2008. Það vantar 5,2 milljarða upp á það sem þá var, á föstu verðlagi, þegar miðað er við helstu verkefni sem hafa verið flutt til Landspítalans á millum þessara ára, 2008 og 2015. Ef við lítum bara á fjárframlögin sjálf miðað við óbreytta stöðu vantar 3,5 milljarða, þ.e. þau eru 7% lægri en þau voru á föstu verðlagi árið 2008. Fjárlagafrumvarpið 2016 boðar enga breytingu á þessari stöðu. Samt hefur ýmislegt breyst síðan þá.

Frá árinu 2008 hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 6,7%. Þar af hefur íbúum 70 ára og eldri fjölgað um 13,2% og það er sá hluti íbúanna sem þarf mesta umönnun. Þegar þeim fjölgar mæðir auðvitað meira á spítalanum. 80 ára og eldri, þeim sem hrumastir eru og þurfa mest á spítalanum að halda, hefur fjölgað um nánast 20%. Í heild hefur landsmönnum sjálfum fjölgað um 4,3%.

Þess má líka geta að á þessum tíma hefur ferðamönnum til Íslands fjölgað um nánast svo milljón skiptir. Menn hafa reiknað út að það jafngildi því að 45–50 þús. manna byggðarlag hafi risið upp á Íslandi. Í landi sem telur 330 þús. manns skiptir þetta máli. Það liggur fyrir að kostnaður við heilbrigðisþjónustuna hefur aukist verulega vegna þess að hann vex hratt með auknum aldri fólksins. Tíðni langvarandi sjúkdóma hefur þar af leiðandi stóraukist og þjónustuþörf líka. Þegar þetta er tekið inn í er hægt að sýna fram á það með nákvæmum útreikningum að það vantar 2,9 milljarða upp á að Landspítalinn fái það sem hann þarf inn í sinn rekstur.

Þetta hefði ég gjarnan viljað ræða við hv. þm. Karl Garðarsson vegna þess að hann var eini þingmaðurinn sem lagði í þessa umræðu, en vitaskuld fer hann eins og aðrir þingmenn stjórnarliðsins sem maður vill eiga við orðastað. Hvar er hv. þm. Brynjar Níelsson sem hefur belgt sig út á síðustu dögum, barið sér á brjóst yfir sérstakri frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar gagnvart öldruðum og öryrkjum? Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur ítrekað varið framkomu ríkisstjórnarinnar og svik gagnvart öldruðum og öryrkjum með því að fyrri ríkisstjórn hafi staðið sig svo illa.

Vissulega er það rétt, eins og ég hef þegar sagt, að fyrri ríkisstjórn varð sökum þeirra skelfilegu aðstæðna sem hún lenti í, sem hún tók við eftir áralanga samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að skera verulega niður. Hvað gerðum við gagnvart öldruðum og öryrkjum? Jú, það sem við gerðum var að verja þá sem voru á strípuðum bótum. Ekki bara það, heldur hækkuðu menn líka framfærsluviðmið og afkomutryggingu sem á því byggðist. Hitt er auðvitað alveg hárrétt, eins og margsinnis hefur komið fram, að skerðingar voru auknar aftur og færðar til þess horfs sem þær voru áður en Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, dró úr þeim sem mest hefur nokkru sinni verið gert. En við gerðum þó ekki annað en að færa það í það horf sem það var best fyrir kreppuna. Það sem skipti máli var að þeir sem höfðu engar tekjur úr lífeyrissjóðum, engar vinnutekjur, héldu bótum sínum óskertum. Ekki nóg með það, eins og ég sagði, heldur hélt afkomutryggingin í við verðlag. Og hvernig var þetta 2011, herra forseti, þegar gerðir voru kjarasamningar á miðju ári? Sú hækkun sem þá var gerð var flutt rakleiðis yfir á grunnbætur. Sömuleiðis var þá samið á almennum vinnumarkaði um 51 þús. kr. eingreiðslu. Hvað gerði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur? Jú, öryrkjar og aldraðir fengu hana svikalaust um leið.

Þótt ekki sé saman að jafna þegar um er að ræða annars vegar blússandi góðæri og hins vegar gapandi hrun getur samt enginn maður komið hingað og sagt að fyrri ríkisstjórn hafi ekki varið þá sem verst voru staddir. Það var leiðarhnoða hennar út í gegn.

Hvað hefur núverandi ríkisstjórn gert gagnvart öldruðum? Menn koma hér og hreykja sér, berja sér á brjóst yfir rausn og örlæti gagnvart öldruðum og öryrkjum. Í hverju felst þessi rausn? Í hverju felst örlætið? Hvað er það sem aldraðir og öryrkjar hafa fengið í tíð þessarar ríkisstjórnar þegar grannt er skoðað? Það kemur í ljós að þeir hafa fengið skitinn 10 þúsund kall þegar búið er að taka tillit til skatta. Hvað segja nú allir þeir sem hingað hafa komið með augun blá og starandi og lofað því að vinna vel að kjörum öryrkja? Hv. þm. Ásmundur Friðriksson, hv. þm. Karl Garðarsson, hv. þm. Willum Þór Þórsson, sem var hérna fyrir nokkrum mínútum og talaði um að hann vildi leggja sitt af mörkum, hvar eru þeir? Þeir þora ekki einu sinni að sitja undir þessari ræðu minni vegna þess að þeir skammast sín fyrir að það eina sem þeir hafa gert fyrir aldraða og öryrkja er að láta þá fá skitinn 10 þúsund kall. Hvað hafa þeir gert annað? Jú, aldraðir og öryrkjar eru eini hópurinn á Íslandi sem ekki fær afturvirka hækkun. Þó að það hafi verið hækkun í byrjun þessa árs og þó að það verði hækkun í byrjun næsta árs breytir það ekki því að þeir eru eini hópurinn sem ekki hefur fengið neina hækkun á þessu ári. Mikil sé skömm þeirra þingmanna sem bera ábyrgð á þessu.