145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég get ekki hjálpað hv. þingmanni við það. Ég átti á dauða mínum von fremur en því að hv. þm. Brynjar Níelsson yrði ekki hér í salnum þegar ég héldi ræðu vegna þess að við höfum átt orðastað úr sætum okkar vegna þess að hv. þingmaður er góður frammíkallari og hefur lýst skoðunum sínum mest með frammíköllum. Hann er hins vegar ekki hér í dag.

Ég átti von á því að hv. þm. Ásmundur Friðriksson, sem grét í ræðustól áðan yfir því að hvað fólk væri vont við hann út af því hvernig hann hefur komið fram við aldraða og öryrkja, yrði í salnum. Ég átti von á hv. þm. Willum Þór Þórssyni, sem lýsti því yfir að hann vildi gjarnan leggja sitt lóð á vogarskálarnar, vissi bara ekki hvernig, til að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Ég átti von á því að þessir hv. þingmenn yrðu hér til að hægt yrði að ræða við þá, en þeir hafa ekki kjark til þess að koma. Þeir eru of huglausir til að ræða þetta augliti til auglitis og þeir láta sig hverfa þegar kemur í málefnalega umræðu. Af hverju? Vegna þess að þeir vita að þeir geta ekki staðist rökin í málinu.

Ég verð því að hryggja hv. þingmann með því að ég veit engin ráð til þess að draga þessa hv. þingmenn hingað í salinn. Það má þó hv. þm. Jón Gunnarsson eiga að hann er kjarkmaður og situr hér þótt niðurlútur sé eftir þennan morgun. En jafnvel hann, afreksmaðurinn, hafði ekki hug til að koma hér og ræða málefni aldraðra og öryrkja á þessum morgni, (JónG: … Ég er með ræðu á eftir …) svo mikið er víst. (JónG: Ég er með ræðu á eftir, hlustaðu bara á hana.) Já, ég hlusta hér á allar ræður. Ég vinn mína vinnu en ég hunskast ekki úr þingsal eins og þingmenn sem bersýnilega koma hingað bara til að segja sínar skoðanir en þora ekki að standa fyrir máli sínu. Það verður hins vegar aldrei sagt um hv. þm. (Gripið fram í.) Jón Gunnarsson að hann þori það ekki. Það verður líka tekið hraustlega á honum þegar að því kemur.

Ég verð því miður að hryggja hv. þingmann og segja að (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) ég kann ekki leiðina.