145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:53]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er einn þeirra fáu sem hafa talað um mennta- og menningarmál í sínum ræðum um fjárlagafrumvarpið. Ég vil byrja á að þakka honum fyrir það en nú er staðan sú að málefni Ríkisútvarpsins eru í miklu uppnámi og menntamálaráðherra hefur upplýst í fjölmiðlum að hann nái ekki frumvarpi út úr ríkisstjórninni. Stjórn Ríkisútvarpsins var upplýst um það í apríl síðastliðnum að menntamálaráðherrann vænti þess að frumvarpið kæmist úr ríkisstjórn og hann vissi að minnsta kosti af stuðningi þriggja ráðherra við frumvarpið á þeim tíma, þ.e. menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra. Hvað skyldi hafa gerst síðan? Hefur hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra snúist hugur? Eða gæti verið að forsætisráðherra og fjármálaráðherra væru komnir í minni hluta í sinni eigin ríkisstjórn?

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er reyndur maður, hefur setið sem ráðherra í ríkisstjórn. Hvernig horfir þetta við honum og hvaða þýðingu telur þingmaðurinn að þetta muni hafa?