145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hið sanna andlit ríkisstjórnarinnar, þessarar hægri stjórnar sem svo er kölluð, kemur alltaf betur og betur í ljós. Hún hikar ekki við að létta álögum af stórfyrirtækjum sem gengur vel, létta álögum af þeim sem mestar hafa tekjurnar í landinu og eiga mestan auð. Hún flýtir sér við það. Hún vill breyta skattkerfinu til að létta skattbyrði af þeim sem betra hafa það en ekki af hinum, hún gengur hart gegn heilbrigðisþjónustunni og vill ekki bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Framsóknarflokkurinn hefur verið að móast við, eins og krakkarnir mundu segja, og móaðist við í fyrra þegar tekjufrumvörpin voru lögð fram og voru með fyrirvara eins og þingmaðurinn bendir á.

Hins vegar kristallaðist í því sem þingmaðurinn sagði áðan að mótvægisaðgerðirnar við matarskattinn eru að mestu leyti teknar til baka í fjáraukalögunum núna. Það eru teknar til baka 600 milljónir út af barnabótunum og 200 út af vaxtabótunum og er þá ekki undarlegt að framsóknarmennirnir, t.d. sá góði maður, hv. þm. Willum Þór Þórsson, tali ekkert um þetta? Þeir minnast ekki á þetta. Þeir sitja bara, þeir sitja ekki keikir, þeir sitja daufir. Er það ekki undarlegt?