145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það kom fram í umræðunni þegar við vorum að ræða fjáraukalögin þar sem þessar tölur eru undir að rétt væri, úr því að framsóknarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd ætla ekki að óska eftir greiningu á mótvægisaðgerðunum og hvaða áhrif þær hafa haft, að minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerði það. Í ljósi sögunnar og þessara aðgerða út af fyrir sig er ótækt annað en að fram fari einhver greining á því hvaða áhrif aðgerðirnar höfðu og hversu stór hluti þeirra hafi í raun komið til framkvæmda með því að megnið af upphæðinni gengur til baka til ríkissjóðs. Ég held að það sé mjög mikilvægt að minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar óski eftir þessari greiningu þannig að hún liggi fyrir.

Hvað varðar hina pólitísku innviði Framsóknarflokksins finnst mér þetta að mörgu leyti endurspegla vel tilvist og tilvistarkreppu þess flokks í lengd og bráð, þ.e. nánast að ganga af göflunum yfir einhverju máli á einhverjum tímapunkti sem virðist vera mikið réttlætismál og sópar almenningsálitinu og hinni almennu umræðu með sér eins og þegar framsóknarmenn sögðust ekki láta bjóða sér að hækka matarskattinn, þeir stæðu með almenningi í landinu, með heimilunum í landinu og allt þetta sem var þrástefið í kosningabaráttunni 2013. Þegar allt kemur til alls skiptir þetta engu máli. Þegar kastljósið er ekki lengur á ákvörðuninni, matarskattinum sem slíkum, þegar búið er að klára það og það eru komin önnur áramót og önnur tilvera er Framsókn bara komin í önnur föt. Þá er eitthvað annað sem skiptir máli.

Það afhjúpar alveg sérstaklega hversu slök eftirfylgnin var í raun og hversu lítil innstæða var þá þegar (Forseti hringir.) allt kom til alls fyrir þeim mikla pólitíska funa sem umlék þetta mál á sínum tíma.