145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held akkúrat að afgreiðsla Norðmanna á 48 klukkustunda reglunni stafi af því að þeir taka á móti miklum fjölda flóttamanna að öðru leyti. Þeir vilja þess vegna með hröðum hætti sía frá þá sem koma frá löndum þar sem ekki ríkir ófriður og ekki ríkir almennur ótti og neyðarástand með sama hætti og gerist á þeim svæðum þaðan sem flóttamenn koma.

Það er náttúrulega slíkur gríðarlegur fjöldi á flótta nú í Evrópu að þau lönd sem flóttamenn sækja helst og eru opin að einhverju leyti fá nú holskeflu umsókna yfir sig. Norðmenn eru engin undantekning í því. Þeir hafa veitt mörgum hæli.

Við erum ekki í þeirri stöðu. Við höfum vanrækt að vinna umsóknirnar hratt, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, og afleiðingin af því er að hluta til sú að það myndast ákveðin mannúðleg skylda á okkur að loka ekki augunum gagnvart fólki sem hefur þurft að hanga hérna og bíða eftir svari í kannski ár, þannig að þetta er okkar eigið sjálfskaparvíti.

Varðandi meðferð þeirra fjölskyldna sem hér hafa mest verið til umræðu teldi ég áreiðanlega betra fyrir fjölskyldurnar að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef þau gætu einfaldlega kallað til baka þá ákvörðun að kæra ekki úrskurðinn og látið kæruna ganga til úrskurðarnefndar því að ef þau fá ríkisborgararétt byrjar sjúkratrygging ekki að tikka inn fyrr en eftir hálft ár og svo framvegis. Ég mundi því halda að réttarstaða þeirra og aðstaða væri best tryggð með því að afturkalla einfaldlega ákvörðunina um að áfrýja ekki, að kæra ekki úrskurðinn.

Ef hér kemur mikill fjöldi sýrlenskra flóttamanna sem er í alvöruneyð (Forseti hringir.) skapar þessi afgreiðsla ekkert fordæmisgildi gagnvart öðrum albönskum (Forseti hringir.) fjölskyldum sem hingað koma.