145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Þó að ég hafi kannski ekki sagt það í ræðunni hef ég látið þau orð falla áður að við tókum við á alveg hárréttum tíma. Það var komin rétt sveifla í málin og margt fór að leggjast með okkur. Ég hef aldrei leynt því þó að ég hafi ekki í þeirri stuttu ræðu minni á þessum degi talað um það. Auðvitað skiptir máli hverjir sitja í stólunum, það er alveg ljóst, en það skiptir líka miklu máli hvernig við höfum undirbúið jarðveginn. Að vissu leyti og að mörgu leyti var búið að gera ágætt í því þó að ég sé ekki að telja upp einhverja einstaka þætti í því hér.

Ríkisstjórnin var engu að síður, og ég tek undir það með þér, himnasending. Það held ég að sé alveg rétt. Vissulega voru þó margir hlutir farnir að leggjast með landi og þjóð þegar hún tók við.