145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:04]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Eins og kom fram í máli mínu hef ég eins og fleiri þingmenn ríkisstjórnarflokkanna komið inn á það að vissulega hafa margar skerðingar verið afnumdar og við höfum skilað þeim skerðingum til baka til aldraðra og lífeyrisþega, það er alveg ljóst. Auðvitað er það svo og ég er algjörlega sammála þér að við þurfum að hækka og bæta kjör þessa fólks áfram. Það er algjörlega ljóst, ég vil það. Ég hef sagt og sagði það í ræðu minni áðan að ég vildi finna leið til þess að bæta þeim hópi þá sex mánuði upp sem ég fékk sjálfur núna á þessu ári. Ég vil finna leið til þess, t.d. með því að taka helminginn af þessari 9,7% hækkun og færa hana aftur til 1. maí eða 1. júní ef samkomulag næst um það. Ég er fullur af vilja gerður til að bæta kjör þeirra og koma til móts við þessa að mér finnst eðlilegu kröfu í því ástandi sem er í samfélaginu.