145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson veldur mér sárum vonbrigðum. Ég hélt að hv. þingmaður mundi standa með sinni eigin sannfæringu. Sannfæring hans er sú sem hann hefur lýst, hann vill að hækkað verði til aldraðra og öryrkja en hann ætlar ekki að greiða því atkvæði, ekki nema samstaða takist um það. Hv. formaður þingflokksins er komin hér eins og varðhundur til að hafa gætur á hv. þingmanni. Hvað var það sem hann sagði áðan, frú forseti? Hann sagði: Við verðum dæmd af framkomu okkar við eldri borgara og öryrkja þessa lands. Hv. þingmaður hefur komið hingað og í fjölmiðla og sagst sjá eftir að hafa ekki tekið undir tillögur um hækkanir til aldraðra og öryrkja. Nú kemur hann og hvað er hann að segja? Hann fer enn undan í flæmingi. Ætlar hann ekki að standa við sína eigin sannfæringu? Ætlar hann virkilega ekki að greiða atkvæði með tillögu um hækkun, um afturvirkar bætur til aldraðra og öryrkja? Nei, það er það sem hann var að segja. Þá verður hann samkvæmt sínum eigin orðum (Forseti hringir.) dæmdur og hann verður léttvægur fundinn fyrir sín eigin orð hjá öldruðum og öryrkjum í landinu. Ég varð fyrir sárum vonbrigðum með hv. þm. Ásmund Friðriksson.