145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:10]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar og hvet hv. þingmann til að kynna sér álit hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þetta er stutt og auðlesin skýrsla en þar kemur meðal annars fram þessi þörf fyrir aukafjárveitingu til að geta sinnt frumkvæðisrannsóknum. Sömuleiðis stendur þar, með leyfi forseta:

„Embætti umboðsmanns Alþingis nýtur trausts og leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að þannig sé búið að embættinu að því sé gert kleift að starfa faglega og sinna þeim lögbundnu verkefnum sem því eru falin. Í því sambandi var rætt um samhengi fjárveitinga til umboðsmanns og stöðu framkvæmdarvaldsins í tengslum við það.“

Það er mjög mikilvægt að mínu mati að tryggja fjárhagslegt öryggi umboðsmanns Alþingis og ég vona að hv. þingmaður taki undir það með mér.