145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:13]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Ég ætla ekki að dæma um það hvað það eru margir í mínum þingflokki sem styðja minn málflutning í þessu máli. Það er nóg fyrir mig að tala fyrir mig, aðrir munu tala fyrir sig í því máli. Ég hef sagt það skýrum orðum að ég hafi gert rangt þegar ég greiddi ekki tillögunni atkvæði, ég mun við 3. umr. skoða hvernig staðan verður þá af því að það er ekkert víst að þessi tillaga verði flutt aftur. Það verður kannski komin önnur niðurstaða í málið. Ég var með eina tillögu í því efni áðan. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum á einhvern hátt að bæta þessu fólki upp þær tekjur sem við fengum á sama tíma og ég mun vinna að því. Það er svarið sem ég get gefið núna. Við atkvæðagreiðsluna kemur í ljós hvað ég geri, en það verður örugglega með hagsmuni þeirra í huga. Það er alveg klárt.