145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja það að ég var sessunautur hv. þm. Jóns Gunnarssonar tvö síðastliðin þing og sit í því sæti sem hv. þm. Kristján L. Möller situr í í dag. Mín samskipti við hv. þm. Jón Gunnarsson voru á allt aðra leið en hv. þm. Birgitta Jónsdóttir lýsti hér í morgun.

Að öðru máli sem var til umræðu og er ræða hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar og svo þær ræður sem hv. stjórnarandstæðingar hafa komið hér upp í varðandi fundarstjórn forseta. Staðreyndin er auðvitað sú að stjórnarandstaðan er í málþófi sem hún áttar sig eiginlega ekki sjálf á til hvers er, hvert á að leiða okkur og hvenær á að enda. Svo tala menn um það að kalla stjórnarandstöðuna að borðinu til að fara að ræða einstaka mál sem snúa til að mynda að öldruðum og öryrkjum. Það kann að vera að hv. þm. Össur Skarphéðinsson bjóði fram borgarstjórann í Reykjavík í þá vinnu, sem boðaði það um helgina að fara ætti í að skera niður mat til aldraðra og öryrkja. (Forseti hringir.) Þetta var eitt sinn vonarstjarna Samfylkingarinnar og enn horft til hans vegna forustuvanda Samfylkingarinnar í dag. (Forseti hringir.) Kannski er hv. þm. Össur Skarphéðinsson að bjóða þennan einstakling fram, borgarstjórann í Reykjavík, í þessa vinnu.