145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefur legið fyrir um töluvert skeið í þessari umræðu að helsta bitbeinið milli stjórnar og stjórnarandstöðu er það hvort greiða eigi öldruðum og öryrkjum afturvirkar bætur til 1. maí. Nú liggur fyrir að hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur staðfest það hér að hann vilji koma að þeirri vinnu, hann hafi gert mistök þegar hann studdi ekki tillögu um það. Hann hefur staðfest að ef svipuð tillaga komi fram muni hann greiða henni atkvæði. Hann hefur jafnframt gert uppskátt um að það séu viðræður innan þingflokks sjálfstæðismanna og þá væntanlega innan stjórnarliðsins um að finna einhvers konar málamiðlun, hugsanlega eftir þeim brautum sem hann nefndi áðan. Um það er hægt að ræða við stjórnarandstöðuna. (Gripið fram í.) Við erum reiðubúin til að koma að þeirri vinnu og setja niður sátt í því máli sem við höfum verið að deila um. Það heitir að greiða fyrir þingstörfum. Ég vil taka þátt í því. Ég held að þá væri hægt að ljúka þessari umræðu (Forseti hringir.) mjög hratt og þess vegna tel ég að fresta ætti fundi núna og freista þess (Forseti hringir.) að finna þá sátt sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson segir að sé í reynd kvik einhvers staðar innan stjórnarliðsins.