145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað, var það sem mér datt í hug þegar hv. þingmaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins Ásmundur Einar Daðason tók til máls hér áðan. Er það virkilega eina innlegg hv. þingflokksformanns Framsóknarflokksins í umræðuna um kjör ellilífeyrisþega og öryrkja að benda á það hvað Reykjavíkurborg er að gera? Mér finnst það ekki sérlega málefnaleg eða góð eða sterk rök inn í þessa umræðu og langar hreinlega að biðla til forseta um að hvetja þingflokksformenn stjórnarliða til þess, í staðinn fyrir að koma með einhvern skæting, að setjast niður og ræða málin í fullri alvöru og án skætings um það hvernig við getum undið ofan af þessu og lokið þingi á einhvern hátt. Það verður ekki gert öðruvísi en að fólk setjist niður og tali saman.