145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það hefur ítrekað komið fram af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins og það sama var að koma fram hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni hvað hefur verið gert fyrir aldraða og öryrkja og eins að hverju menn stefna á næstu árum, 300 þús. kr. lágmarkslaunum. Þetta hefur komið fram hjá hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, hv. þm. Willum Þór Þórssyni, hv. þm. Karli Garðarssyni og svona mætti áfram telja. Það er auðvitað sársaukafullt fyrir stjórnarandstöðuna að vera stödd í umræðu sem er fyrir löngu tæmd og getur ekki kallast annað en málþóf. Í það minnsta er það svoleiðis að þetta eru gamaldags vinnubrögð hjá stjórnarandstöðunni að vera ekki tilbúin til að setjast niður og semja um það hvenær þessari umræðu lýkur. Það hefur ekki verið svo. Á þessu eru að vísu undantekningar, svo ég taki til að mynda það sem maður hefur fundið hjá hv. þingmönnum Bjartrar framtíðar sem hafa sýnt vilja til þess að setjast niður og ræða hvenær umræðan geti tekið enda. En þannig er það ekki af hálfu annarra stjórnarandstöðuflokka á þingi.

Það er líka sérstakt að fylgjast (Forseti hringir.) með því hvernig stjórnarandstaðan bregst við þegar maður bendir á hið augljósa, hvað er að gerast í borginni undir stjórn þessara flokka þar sem verið er að skera niður gagnvart öryrkjum og öldruðum. (Forseti hringir.) Það sem ég var að benda á áðan er þessi tvískinnungur og þessi gamaldags vinnubrögð sem stjórnarandstaðan viðhefur. Það er það sem er sorglegt, virðulegi forseti.