145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í ljósi þeirra orða sem hér hafa fallið um skæting af hálfu þingflokksformanna stjórnarliða þá hef ég ekki tekið til máls um þetta mál á nokkurn hátt og hef þar af leiðandi ekki verið með neinn skæting og ætla ekki að vera með skæting. Hins vegar er mér ekki kunnugt um að neinar sérstakar samningaumleitanir séu í gangi. Það eru tvö mál sem hafa verið til umræðu, við getum sagt þrjú, og þarf með einhverjum hætti að leysa eftir því sem kemur fram hjá stjórnarandstöðunni, það er hvort frumvarp menntamálaráðherra sem liggur hjá ríkisstjórn um hækkun útvarpsgjalds komi inn og hvort meiri peningar verði settir í Landspítalann, þetta er það sem menn hafa verið að nefna. Að því sögðu er annars vegar RÚV enn þá hjá ráðherra menntamála til að vinna úr og heilbrigðismálin hins vegar í ákveðnum farvegi þar sem verið er að reyna að skoða ákveðna þætti. Þetta er það sem á sér stað nú á bak við tjöldin eins og menn tala stundum um. En ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, við erum hér mörg eldri en tvævetur og við vitum að (Forseti hringir.) með einum eða öðrum hætti semjum við um það á hvern hátt við ljúkum þingstörfum. Það hefur alltaf verið gert. (Gripið fram í.) Það er hins vegar ekki endilega gert með því að fólk vindi ofan af því fjárlagafrumvarpi sem stendur eftir í dag.