145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil byrja á að biðja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, afsökunar. Það var ósanngjarnt af mér að saka hana um skæting hér í þessari umræðu því að hún hefur svo sannarlega ekki sýnt skæting. Það var ósanngjarnt af mér að taka hana undir þann hatt að láta hana falla undir það að mér hafi þótt þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sýna skæting í þessari umræðu. Þess vegna vil ég nota þennan vettvang til að biðja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur afsökunar á orðum mínum. Hún átti þau ekki skilið.

Mér þótti gott að heyra að RÚV og heilbrigðismálin séu stödd hjá ráðherra. Það væri hins vegar líka mjög gott að fá að vita hvenær við eigum þá von á að heyra eitthvað um það hvenær þeir hafa lokið máli sínu. Verður það ekki að gerast meðan við erum enn þá að ræða fjárlögin? Annars hlýtur það að vera frekar ómarktækt.