145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er sannarlega mín ósk eins og annarra hv. stjórnarandstöðuþingmanna að eitthvað hreyfist í þeim málum sem við höfum barist fyrir. Stærstu málin þar eru kjör aldraðra og öryrkja, Landspítalinn og síðan þarf auðvitað að taka á málefnum Ríkisútvarpsins. Ég hef beðið forseta að setja mig á mælendaskrá og ég vil biðja forseta að sjá til þess að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra verði í salnum þegar ég held mína ræðu vegna þess að ég mun tala um Ríkisútvarpið og þá stöðu sem þar er komin upp og hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir þjónustu Ríkisútvarpsins, ekki síst úti um landið. Ég vil einnig tala um málefni Þjóðskjalasafns þar sem forusta fjárlaganefndar fer einnig fram hjá hæstv. menntamálaráðherra hvað húsnæði þess varðar.