145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er verið að tala um að einhverjar óljósar fréttir séu í gangi af fjárlagagerðinni. Svo er ekki. Það stóð til að meiri hlutinn mundi setjast niður núna í hádeginu í dag en af því varð ekki. Við munum líklega setjast niður hér síðdegis. Auðvitað þurfum við að undirbúa framhaldsnefndarálit okkar. Ég vona að ekki sé verið að æsa upp mannskapinn hér þó að meiri hluti fjárlaganefndar hittist. Þegar málið kemur aftur til nefndar eftir að þessari umræðu lýkur, sem er óvíst hvenær verður því að minni hlutinn hefur enn þá ekki sagt okkur hvað þarf að tala lengi hér, þá verðum við náttúrlega að vera búin að vinna einhverja forvinnu þannig að málið gangi hraðar til 3. umr. Ég get alveg staðfest að fréttir af einhverjum þreifingum eða einhverju slíku eru engar vegna þess að málið er fyrst og fremst hjá þinginu.