145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Var hv. þm. Vigdís Hauksdóttir að segja að menn væru ekki neitt að vinna í því að sjá fyrir endann á þessari vinnu hér og hvernig málum verði háttað? Ég skildi hana þannig, frú forseti, og það veldur mér miklum vonbrigðum. Ég vona að meiri hlutinn fundi sem mest til að reyna að finna út úr þeirri stöðu sem upp er komin. En ég velti fyrir mér hvort það geti verið að svo miklar deilur séu innan stjórnarflokkanna að hér þokist ekkert áfram fyrir vikið. Það dregst mjög skýrt fram gagnvart hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þar sem hann fær ekki að koma með frumvarp inn í þingið. Það er stoppað af þingflokkunum og sjálfsagt ákveðnum aðilum þar. Og meiri hluti fjárlaganefndar grípur fram fyrir hendurnar á hæstv. ráðherra þegar kemur að stefnu Þjóðskjalasafnsins. Það er eitthvað (Forseti hringir.) stórkostlegt að gerast. Það er sennilega skýringin á þessum hringlandahætti og hvernig málin standa hér öll föst.