145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði að vandinn væri sá að við í minni hlutanum vildum ekki segja neitt hvað við ætluðum að tala lengi. Við munum tala eins lengi og þörf er á þar til meiri hlutinn í þinginu er tilbúinn til að setjast með okkur og fara yfir aðaláherslumál okkar sem eru sanngjarnar kjarabætur til lífeyrisþega aftur til 1. maí, viðunandi fjárveitingar til Landspítalans og viðunandi fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Við stöndum varðstöðu um þetta mál, enda varðar það almannahagsmuni og skiptir máli fyrir siðað og velmegandi samfélag að hafa þessa þætti í lagi. Við eigum efni í margar ræður því að hugsjónaeldurinn brennur í brjósti okkar. Við verðum ekki í neinum vandræðum með það.