145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Áður en ég hef mál mitt og klukkan fer í gang þá vil ég spyrja hæstv. forseta um þá bón mína að hæstv. félagsmálaráðherra verði viðstaddur þegar ég flyt ræðu mína vegna þess að ég hyggst leggja fyrir hann nokkrar mjög þýðingarmiklar spurningar um mál málanna, þ.e. kjör aldraðra og öryrkja.

(Forseti (ÞórE): Forseti getur upplýst að boðum hefur verið komið til skila.)

Já, en mér sem ræðumanni sem er að fara í sína þriðju ræðu og hefur ekki nema tíu mínútur nægir ekki að boðum hafi verið komið til skila. Kemur ráðherrann eða kemur hann ekki? Það er eiginlega grundvallarspurning mín vegna þess að ég vil helst ekki hefja ræðu mína fyrr en ráðherrann er kominn í salinn.

(Forseti (ÞórE): Forseti upplýsir að ekki hefur borist svar frá hæstv. ráðherra.)

Má ég þá kannski biðja um að tími minn verði stöðvaður og við bíðum eftir svari frá ráðherra? Ég tel að bónin hafi verið gerð með nægjanlegum fyrirvara, en ég virði það við forseta og starfsmenn þingsins að boðunum hafi verið komið til ráðherra, en ég virði það ekki að ráðherrann virði þingið ekki svars, það líkar mér illa. En ég á svo sem eftir fleiri ræður og þeim fjölgar þá bara sem ég þarf að taka þar til viðkomandi ráðherra kemur í salinn og stendur fyrir máli sínu.

Ástæða þessarar spurningar, virðulegi forseti, er einmitt sú að ég tek eftir því að stjórnarliðar, ég veit ekki hvernig ég á að orða það án þess að fá á mig bjöllu, flytja stíla sem mér finnst allir vera eins, lesa upp einhverja stíla um hvað hefur verið gert á kjörtímabilinu o.s.frv. Mér finnst eins og stjórnarliðar séu með þessum rökstuðningi að segja að það sé búið að gera svo svakalega mikið fyrir aldraða og öryrkja á kjörtímabilinu að það þurfi ekki að gera neitt meira. Það er það samtal sem ég vil eiga við ráðherra málaflokksins sem ber ábyrgð á þessu máli.

Virðulegi forseti. Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir allt prósentutal stjórnarliða, þeir tala mest um prósentur og tala um 17,1% hækkun, þá er verið að villa um fyrir hlustendum og þeim sem fylgjast með. Það er verið að villa um fyrir þeim vegna þess að inni í þeirri tölu er 9,7% hækkunin sem á að koma 1. janúar næstkomandi.

Staðreyndirnar eru einfaldlega þessar, virðulegi forseti, sem við skulum fara yfir. Við skulum taka örorkubæturnar sérstaklega fyrir. Í tíð þessarar ríkisstjórnar frá sumrinu 2013 og með þeim aðgerðum sem þá var farið í og ríkisstjórnin hælir sér svo svakalega mikið af að þar hafi verið komið til móts við aldraða og öryrkja hafa aldraðir og öryrkjar fengið 10 þús. kr. hækkun á mánuði. Ég segi og skrifa 10 þús. kr. Það er villandi að tala um prósentuhækkanir. Við getum talað um slíkt gagnvart launum forseta og ráðherra o.s.frv., það eru háar tölur, en tiltölulega há prósentutala ofan á lítið sem ekki neitt er engin hækkun. Það er það sem gerir þessar 10 þús. kr. hækkun á kjörtímabilinu. Ef stjórnarliðar eru ánægðir með það þá endurtek ég það sem ég hef áður sagt, þá vitum við bara að stjórnarliðar telja sig hafa fundið breiðu bökin sem skal ráðast á núna til þess að koma saman fjárlögum fyrir næsta ár eða klára fjáraukann fyrir þetta ár.(Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég skora á formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að biðja um andsvar við mig og koma í andsvar og ræða þetta mál vegna þess að það er eini sénsinn sem ég á til að eiga samtal við hv. þingmann. Hvar eru þingmennirnir sem voru í salnum áðan og sitja í velferðarnefnd? Ég nefni tvo þingmenn Framsóknarflokksins, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, sem oft kemur hér upp í störfum þingsins og flytur mjög góðar ræður um verðtryggingu, húsnæðismál og annað slíkt og hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur sem hefur heldur ekki látið í sér heyra. Þetta eru fulltrúar í velferðarnefnd sem eiga að vera að hugsa um hag aldraðra og öryrkja og þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Staðreyndin er sú sem ég var að segja hér um krónutöluhækkun og ein staðreynd í viðbót er að hækkunin 1. janúar síðastliðinn sem ríkisstjórnin er að hæla sér af, sem var 3%, gerir 4 þús. kr. eftir skatt, það er allt og sumt. Má ég minna á, virðulegi forseti, að þann sama dag hækkuðu stjórnarflokkarnir virðisaukaskatt á matvæli? Ég leyfi mér að fullyrða að þær 120 þús. kr. eftir skatt sem þar komu inn hafi meira en horfið í hækkun matarskatts, hækkun á húshitun, hækkun á tryggingum, síma og húsnæði, þ.e. fasteignagjöld eða leigu. Þessi upphæð, 4 þús. kr. á mánuði, dugar ekki fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Þarf eitthvað að ræða meira þá sanngjörnu kröfu sem veldur hér mestum deilum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í dag og er það sem við eigum að setjast niður við og reyna að ná sátt um? Það er afturvirk hækkun, sjálfsögð afturvirk hækkun á almannatryggingagreiðslum til aldraðra og öryrkja. Ég tók þetta dæmi, 10 þús. kr. á öllu tímabilinu og 4 þús. kr. á þessu ári sem hurfu eins og dögg fyrir sólu. Sama dag og aldraðir og öryrkjar fengu þá hækkun þá hækkuðu stjórnarflokkarnir matarskatt. Við getum leikið okkur með tölur. 60–70 þús. kr. matarútgjöld á mánuði eru sennilega ekki há tala en 5% hækkun á því er 43 þús. kr. hækkun á árinu. Má ég minna á að hækkunin var um 48 þús. kr. á þessu ári? Þetta er horfið. Það er þetta sem við erum að tala um við 2. umr. fjárlaga og munum líka ræða við 3. umr. fjáraukalaga fyrir þetta ár og eins lengi og við þurfum þar til stjórnarsinnar átta sig á þessari árás á þá þjóðfélagsþegna sem minnst mega sín og það er það sem þarf að laga. Þá ganga þingstörf fljótt fyrir sig í framhaldi af því.

Virðulegi forseti. Ég á hér grein (Gripið fram í.) frá formanni Sjálfstæðisflokksins sem var rituð fimm mínútum fyrir kosningar 2013 um réttlætismál aldraðra. Það er merkilegt að í þeirri grein er ekki minnst á öryrkja. Þar segir:

„Aldraðir eiga að njóta efri áranna með reisn.“

Já, að sjálfsögðu tek ég undir það. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn mun bæta stöðu aldraðra. Draga aftur úr tekjutengingum og hjálpa fólki til sjálfshjálpar með því að leyfa öllum yfir 70 ára aldri að afla sér tekna án skerðinga.“

Í aðgerðunum 2013 er innifalin þessi 10 þús. kr. hækkun. Það að leyfa öldruðum að vinna eitthvað eftir 70 ár án þess að það skerði tekjur, já, það er sjálfsagt mál, ég er mjög hlynntur því. (Gripið fram í: Gott.) En, virðulegi forseti, þetta á ekki við um öryrkja. Þeir hafa ekkert tækifæri eins og margir hverjir til að fara út á vinnumarkaðinn og afla sér tekna og drýgja þá hungurlús sem stjórnarherrarnir skammta núna naumlega úr hnefa.

Ég er líka með bréf sem var skrifað aðeins seinna, það er sennilega þremur mínútum fyrir kosningar 2013, frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem var sent öllum öldruðum á landinu, öllum, til þess að villa um fyrir þeim og segja: Við ætlum að bæta allt sem þarf að bæta o.s.frv. Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Ég bið hv. stjórnarþingmenn í salnum eins og hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Pál Jóhann Pálsson: Komið endilega í andsvar við mig, við skulum eiga samtal um þetta mál. Það er eini sénsinn. (JónG: Það er nú nóg að vinir þínir í atvinnuveganefnd séu að hlusta …) Virðulegi forseti. Það eru ekki bara vinir mínir úr atvinnuveganefnd, það er líka sessunautur, ég skora á hann.

Ég er líka með opið bréf sem öryrki skrifar til Bjarna Benediktssonar. Hafa stjórnarliðar lesið þetta bréf? Ég spyr hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur: Hefur hv. þingmaður lesið þetta bréf? Hefur hún sett sig í fimm mínútur inn í stöðu þessa fólks í þjóðfélaginu? Getur hún ímyndað sér hvernig staðan er eftir það? (VigH: Heill fundur í fjárlaganefnd …) Ég hvet enn þá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að koma í andsvar og ræða við mig um þessi mál.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talar mikið um málþóf. Mér er alveg sama hvað þetta er kallað, virðulegi forseti, mér er svo misboðið (Gripið fram í.) vegna þess hvernig farið er með aldraða og öryrkja að ég mun flytja hér margar ræður í framhaldi af þessari til þess að ræða þetta mál. Ég mun ekki hætta fyrr en ráðherrar koma hér, hunskast til að koma á ráðherrabekkinn og sitja fyrir svörum og svara. Ekki eins og í gær þegar Illugi Gunnarsson, hæstv. menntamálaráðherra, kom hér og sat yfir ræðu og spurningum Birgittu Jónsdóttur um Ríkisútvarpið, sat sem fastast og svaraði engu.

Virðulegi forseti. Þetta er stjórnarliðum til mikillar skammar og er eitt af því sem þarf að lagfæra. Ég mundi treysta mér til þess, virðulegi forseti, og ég segi það enn og aftur vegna þess að ég hef áður komið að því, ég hvet stjórnarliða til þess, hugsið nú málið. Við höfum oft þurft (Forseti hringir.) að setjast niður á þessum tíma og tala okkur til niðurstöðu. Það fá aldrei allir sitt í samningum. Það verða allir að gefa eitthvað eftir. En við getum komist að samkomulagi. Þetta er eitt af þeim málum (Forseti hringir.) auk þess sem hér hefur verið rætt um málefni Landspítalans sem þarf að lagfæra. Nú höfum við svo vel efni á þessum málum. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við í raun enn þá reiðari en ella yfir þessari ósanngirni sem stjórnarliðar beita aldraða og öryrkja og heilbrigðiskerfið í landinu.