145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir ræðu hans og fyrir að taka upp þá kröfu sem meðal annars Öryrkjabandalag Íslands, sem er heildarsamtök fatlaðra og öryrkja í landinu, hefur sett fram, og fá þannig kröfur þess félags, sem má með réttu kalla verkalýðsfélag öryrkja á Íslandi, hingað inn í þingsalinn og umræðuna. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það í ræðu sinni að þær fjárhæðir sem lífeyrisþegum eru skammtaðar duga engan veginn til framfærslu. Hann benti þar á þætti sem segja má að hafi gert lífeyrisþegum enn erfiðara fyrir sem og öðrum þeim sem hafa úr lágum upphæðum að spila sér til framfærslu, svo sem hækkun á matarskatti. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á skatt- og tollaumhverfinu, en þær hafa ekki beinlínis orðið til þess að hjálpa þessum hópi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nú þegar er verið að gera alls konar breytingar á kerfinu hvort ekki væri þá einmitt lag að gera breytingar. Til dæmis er nú fullur virðisaukaskattur innheimtur af lyfjum og hjálpartækjum. Væri það ekki eitthvað sem við þyrftum að skoða í þessari breytu? Það mundi hjálpa til til þess að auka ráðstöfunartekjur þessara hópa. Er það ekki eitt af því sem við ættum (Forseti hringir.) að hugsa um í þessari umræðu?