145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef, líkt og hv. þingmaður, setið hér ansi þétt í salnum og hlustað á umræðuna og við höfum fært fyrir því rök af hverju við teljum það bæði eðlilegt og sanngjarnt að lífeyrisþegar fái bætur sínar greiddar afturvirkt líkt og aðrir hópar hafa fengið launahækkanir afturvirkt á þessu ári.

Svör stjórnarliða, að því marki sem þeir hafa hætt sér inn í umræðuna, eru alltaf á þá leið að kjarabætur til öryrkja komi einhvern veginn inn í framtíðina. Mig langar svolítið að tengja það við ríkisfjármálastefnuna sem við höfum nú aðeins verið að ræða um. Það liggur alveg fyrir að áætlunin hjá hæstv. ríkisstjórn er að draga enn úr umfangi samneyslunnar og hafa ýmsar tölur verið nefndar í því efni, en alla vega um tugi milljarða á næstu árum, það fer kannski eftir því hvaða ár við notum sem viðmið. Nú vitum við jafnframt að eldri borgurum þessa lands fer fjölgandi á næstu árum.

Er ekki ákveðin mótsögn hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins að segja að við getum ekki farið í þessar hækkanir núna, að þetta komi allt inn í framtíðina, um leið og það er áætlun þeirrar eigin ríkisstjórnar að draga enn úr samneyslunni? Er það þá trúverðugt? Telur hv. þingmaður það trúverðugt að hægt verði að gera eitthvað fyrir (Forseti hringir.) lífeyrisþega í framtíðinni ef þetta er stóra planið?