145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kjarasamningar sem gerðir hafa verið frá hruni, og sérstaklega þeir síðustu sem voru með töluvert miklar launahækkanir, eru kjarasamningar þar sem við tökum þátt í að aðlaga íslenskt þjóðfélag að þeirri gengisvísitölu sem er í dag eftir gengishrunið í hruninu mikla.

Ég tel ekki að krónan muni styrkjast neitt. 7% styrking á þessu ári er út af ytri aðstæðum og mjög mörgum ferðamönnum. Ef Seðlabankinn væri ekki svona virkur á gjaldeyrismarkaði og keypti mikið af gjaldeyri væri gengisvísitalan lægri. Þess vegna verður ríkisvaldið, ríkisstjórnin, sem samningsaðili við aldraða og öryrkja, að gera það líka. Við þurfum líka að hækka laun aldraðra og öryrkja til samræmis við framtíðarsýn með íslenska krónu sem margir hafa svo með þeirri gengisvísitölu sem er og sem útflutningsatvinnugreinarnar þurfa að hafa. Þá verðum við bara að viðurkenna varðandi kjarasamninga á þessu ári og kannski alveg sérstaklega kjarasamningana sem ríkisstjórnin sjálf hefur gert með stórhækkunum til aðila sem sannarlega áttu það skilið og þurftu að fá þær, að svona þarf líka að gera fyrir aldraða og öryrkja.

Svo vil ég bara nefna það enn einu sinni, virðulegi forseti, að árið 2016 heldur kjaragliðnunin þarna á milli áfram, vegna þess að 5,5% hækkun á almennum markaði í maí eða júní á næsta ári er heldur ekki bætt og það stendur ekki til.

Virðulegi forseti. Mín lokaorð skulu vera þau að ég tók eftir því að þeir stjórnarþingmenn sem voru í salnum og ég skoraði á að koma í andsvar við mig til að ræða þetta mál, þó að það væri bara í andsvörum, þó að þeir kæmu ekki í ræðu, hafa gefist upp á því. Ég hef (Forseti hringir.) því miður ekki fleiri andsvör. Hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg (Forseti hringir.) Gunnarsdóttir, Jón Gunnarsson og Páll Jóhann Pálsson, hvað á ég að segja? Þorðu menn ekki (Forseti hringir.) í andsvar? Vilja menn ekki ræða þetta? Ég skil það ósköp vel að menn séu með óbragð í munni, en ég veit (Forseti hringir.) að hv. þm. Jón Gunnarsson er á mælendaskrá á eftir. Þar mun ég koma í andsvar.