145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:15]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að ég skyldi ekki hafa náð að koma fyrr, þá hefði ég getað svarað þeim spurningum sem hv. þm. Kristján L. Möller var með í ræðu sinni. Ég vil fá að nýta tækifærið þótt ég hafi ekki miklar athugasemdir við fundarstjórn forseta og segja að það liggur alveg fyrir að stefna Framsóknarflokksins er að bætur fylgi lágmarkslaunum. Það var ályktað um það á síðasta flokksþingi og það munu bætur gera núna um áramótin, verða ívið hærri eða rúmlega 1 þús. kr. hærri, og það lítur út fyrir að allar forsendur séu til þess að svo verði aftur að ári.

Ég vil líka benda á að það eru fjölmörg önnur atriði sem ég hef lagt mikla áherslu á til þess að bæta kjör þeirra efnaminni og má finna í fjárlagafrumvarpinu. Þar má nefna aukinn húsnæðisstuðning til leigjenda, stofnframlögin, framlög til starfsendurhæfingarsjóðsins, og er þetta í fyrsta skipti sem verið er að setja framlög þar til að hjálpa fólki til aukinnar virkni, og síðan verður kynnt milli 2. og 3. umr. samkomulagið sem liggur núna fyrir á milli ríkis og sveitarfélaga um framlag til fatlaðs fólks.