145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því í hvaða stöðu stjórnarmeirihlutinn hefur teflt efnahagsmálum þjóðarinnar og stöðu ríkisfjármálanna þegar við erum við 2. umr. fjárlaga skömmu eftir að gengið hefur verið frá sérstökum afsláttarsamningum við erlenda kröfuhafa (ÁsmD: … þið vilduð borga allt úr landi.) í uppgjöri á slitabúum föllnu bankanna.

Sem kunnugt er þá samþykktum við á síðastliðnu vori frumvörp um svokallaðan stöðugleikaskatt sem hefðu skilað í ríkissjóð árið 2016 verulegum fjárhæðum sem sannarlega hefði munað um í ríkissjóði. Þá ber svo við að þrátt fyrir þá góðu samstöðu sem hér var um þá lagasetningu á vorinu ákveður ríkisstjórnin í haust, þrátt fyrir margvíslegar aðvaranir og athugasemdir, að fara í leiðangur til þess að semja við þessa erlendu kröfuhafa, ef þeir samningar höfðu ekki verið þegar gerðir í júní eða á vorinu, um sérstök afsláttarkjör gagnvart þessari skattheimtu, þ.e. að hinum erlendu kröfuhöfum, sem stundum voru kallaðir hrægammar þegar það hentaði í síðustu kosningabaráttu, verði hleypt héðan út úr íslensku efnahagslífi á undan öllum öðrum á Íslandi, á undan lífeyrissjóðunum, á undan almenningi, á undan fyrirtækjunum. Þeir fengju verulegan afslátt svo hleypur á hundruðum milljarða frá stöðugleikaskattinum gegn því að semja um málið. Þetta gerði ríkisstjórnin með vísan til þess að með þeim samningum væru hagsmunir Íslands að fullu tryggðir til langrar framtíðar.

Hvað gerist svo næst? Jú, næst gerist það að stjórnarmeirihlutinn kemur hér upp aðeins örfáum vikum síðar eftir að hann hefur gefið þennan hundraða milljarða afslátt í samningum við erlenda kröfuhafa með vísan til þess að við séum fyllilega tryggð til langrar framtíðar, og segir allt í einu að því miður séu ekki til nægilegir peningar til óbreytts reksturs á Landspítalanum. Það séu heldur ekki til peningar til að hækka kaup aldraðra og öryrkja með sama hætti og frá sama tíma og annarra í landinu. Þetta hlýtur að valda verulegum áhyggjum. Ef ríkissjóður stendur svo veikt eftir afsláttarsamninga við hina erlenda kröfuhafa að stjórnarliðar telji sig ekki eiga fyrir nauðsynlegum útgjöldum ríkissjóðs hlýtur maður að spyrja: Er þá eitthvert borð fyrir báru? Núna er það sem landsbankastjóri hefur kallað „bullandi góðæri“. Hér eru hagfelld ytri skilyrði sem ekki eru í okkar höndum. Olíuverð, verð á fiskmörkuðum, afli á Íslandsmiðum og aðrir slíkir þættir eru okkur hagfelldir og gera að verkum að það er úr miklu meira að moða núna en í meðalári. Ef stjórnarliðarnir eiga ekki fyrir nauðsynlegum rekstri á sjálfu þjóðarsjúkrahúsinu þegar þannig árar hlýtur maður að spyrja: Hefur ekki verið allt of skammt gengið í uppgjörinu við hina erlendu kröfuhafa? Hefur það ekki bara verið skammsýni og misráðið að veita þeim hundraða milljarða afslátt og hleypa þeim úr landi á undan öllum öðrum? Hefði ekki verið miklu skynsamlegra að láta þá greiða stöðugleikaskattinn og fá þær miklu tekjur inn í fjárlögin á komandi ári og vera þá í aðstöðu til að gera þá hluti sem gera þarf og sömuleiðis að hafa nokkurt borð fyrir báru?

Þetta dreg ég fram því að það tjóar ekki fyrir stjórnarliða að koma hér og segja að þeir vilji gjarnan gera eins við aldraða og öryrkja og aðra en það séu bara ekki peningar til að gera það svona hratt. Eða að þeir vilji gjarnan tryggja óbreyttan rekstur Landspítalans en þeir eigi bara ekki fyrir því. Þeir eru nýbúnir að veita sérstakan afslátt til þessara erlendu kröfuhafa á þeirri forsendu að hér sé nóg til alls og gott svigrúm til langrar framtíðar.

Þá er það til að undirstrika að allt er þetta spurning um pólitískar ákvarðanir og forgangsröðun að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur létt auðlegðarskatti af sjálfum sér með því að framlengja hann ekki svo nemur milljónum króna á hverju ári en treystir sér ekki til að verja fjármunum til þess að hækka laun aldraðra og öryrkja með sama hætti og annarra í landinu. Auðlegðarskatturinn skilaði í ríkissjóð liðlega 10 milljörðum kr. Kostnaður við að mæta öryrkjum og öldruðum með þessum hætti er liðlega 6 milljarðar kr. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og fylgismenn þeirra í stjórnarliðinu hafa allt þetta kjörtímabil átt þann pólitíska valkost að gera meira að segja hvort tveggja í senn; lækka verulega auðlegðarskattinn sem lagðist á 5 þús. ríkustu heimilin í landinu en eiga engu að síður fyrir því að hækka kaup aldraðra og öryrkja frá sama tíma. Með sama hætti hefur stjórnarliðið tekið ákvörðun um að lækka veiðigjöld útgerðarinnar algerlega að nauðsynjalausu og hefur þannig sjálft skapað þá aðstöðu sem það kvartar svo undan núna, að eiga ekki fyrir sínum góða vilja.

Við hljótum að hvetja stjórnarliða, fleiri en Ásmund Friðriksson sem er auðvitað ástæða til að þakka fyrir yfirlýsingar hans í þessu máli, hann hefur tekið undir sjónarmið okkar í minni hlutanum svo eftir hefur verið tekið, en um leið hvetja einkanlega þingmenn Framsóknarflokksins til að láta nú sjá að þar renni blóð í einhverjum manni eftir að Sjálfstæðisflokkurinn óð yfir Framsóknarflokkinn í matarskattsmálinu á síðasta ári. Þá hélt maður að sá flokkur skynjaði að kallað væri eftir því að menn þar reyndu að standa í lappirnar í félagslegum áherslum eða áherslum fyrir almenning í landinu. Þess vegna er brýnt að fyrir atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. hafi Framsóknarflokkurinn lagst á sveif með okkur, a.m.k. einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins, til þess að gera þessar sjálfsögðu breytingar á frumvarpinu. Það er bara spurning um forgangsröðun í tekjuöflun og útgjöldum að eiga nægilega fjármuni til að geta gert eins við aldraða og öryrkja og aðra í landinu. Það er enginn að biðja um að gera betur við þá en aðra í landinu, bara að þeir fái sömu meðferð og aðrir í landinu.

Það sem ég vildi síðan í síðari hluta ræðu minnar fá að tæpa á eru kúgunartilburðir meiri hlutans sem minna á fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson og háttalag hans á árunum fyrir hrun, innleiðingu á stjórnmálamenningu sem varð með öðru þess valdandi að hér hrundi stjórnkerfi okkar. Skilaboð send út af valdhöfunum um að stofnanir sem ekki láta að vilja manna verði skornar niður og seldar, að eftirlitsstofnanir megi eiga á illu von ef þær sinna eftirliti sínu eða aðhaldi, að lýðræðisleg umræða eða umfjöllun um stjórnarflokkana sem ekki sé eftir þeirra höfði muni sömuleiðis finna fyrir hnífum stjórnarliðanna. Eigum við ekki bara að loka Þjóðhagsstofnun? var einhvern tíma sagt. Það voru einmitt þessi skilaboð út til kerfisins: Ekki dirfast að andmæla sjónarmiðum hinna ráðandi herra, þá munu menn finna til tevatnsins. Þegar maður horfir á niðurskurðinn til umboðsmanns Alþingis blasir þetta við. Ég bið vandaða þingmenn í röðum stjórnarliða að sjá til þess að það mál nái ekki fram að ganga með þeim hætti heldur að þverpólitísk samstaða sem skapaðist í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nái fram að ganga og hlutur umboðsmanns verði leiðréttur. Síðan verður stjórnarmeirihlutinn auðvitað að sýna það lágmarksþrek (Forseti hringir.) að þola umfjöllun um sig í Ríkisútvarpinu án þess að ætla að skerða útvarpsgjaldið í hefndarskyni fyrir það að sagðar séu fréttir af vondum verkum ríkisstjórnarinnar.