145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:27]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir þessa ræðu hv. þm. Helga Hjörvars gefst mér óvenjulegt tækifæri til að spyrja út í hlut sem lengi hefur leitað á mig. Hann ber hér á ráðherra ýmsar sakir, svo sem eins og þær að þeir hafi aflétt auðlegðarskatti af sjálfum sér með því að framlengja hann ekki. Nú liggur það fyrir í því máli að sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður átti aðild að að skapa lagði á þennan margumtalaða auðlegðarskatt og hann var lagður á til þriggja ára. Það liggur líka fyrir undarlegur dómur Hæstaréttar sem má hafa mörg orð um og mér gefst ekki tími til að ræða nú. Það getur vel verið að ef umræðan dregst í marga daga enn geri ég þann dóm að umtalsefni vegna þess að enn og aftur ræða menn auðlegðarskatt þar sem hamrað er á að auðlegðarskatturinn geti hugsanlega staðist vegna þess að hann er tímabundinn. Tíminn rann út og sú ríkisstjórn sem nú situr aflétti þeim auðlegðarskatti aldrei, gerði enga tilraun til þess, heldur rann hann bara sitt skeið eins og honum var ætlað í upphafi, í þrjú ár.

Því spyr ég hv. þingmann: Hví í ósköpunum höfðuð þið góða fólk ekki þennan auðlegðarskatt ótímabundinn fyrst hann er svona mikill efnahagslegur bjargvættur og réttlætismál? Þið höfðuð nú heil fjögur ár, hv. þingmenn, til að leggja hann á að eilífu. Það var þá hægt að taka slag um það að hann yrði tekinn af en ekki að hann rynni sitt endaskeið með sólarlagsákvæði fyrrverandi ríkisstjórnar.

Ég hef lokið máli mínu.