145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Um auðlegðarskattinn er það að segja að hann var settur á til jafnlengdar gjaldeyrishöftum. Hann var ráðstöfun sem gripið var til vegna neyðarástands í efnahagsmálum á Íslandi sem lýsti sér í því að Alþingi hafði þurft að setja lög sem bönnuðu fólki að fara með fjármuni sína úr landi. Þau lög eru enn í gildi. Gjaldeyrishöftin hafa verið framlengd og auðvitað átti að framlengja auðlegðarskattinn með sama hætti.

Það er síðan rétt hjá hv. þingmanni að það styrkti hina lagalegu stoð auðlegðarskattsins að hann var settur á tímabundið. Það var kannski fyrst og fremst vegna þess að hann var lagður á nokkuð skarpt. Það var nú kannski þess vegna sem ég gat þess að ríkisstjórnin hefði getað slegið tvær flugur í einu höggi, hún hefði getað lækkað skattinn og sniðið af honum agnúana þannig að hann væri tækur til þess að vera varanlegur skattur, því að kannski gekk hann eilítið of langt gagnvart litlum hópum í einstaka atriði, en um leið haldið lunganum af tekjunum frá þessum 5 þús. ríkustu heimilum landsins til að standa undir kauphækkunum fyrir aldraða og öryrkja í landinu með sama hætti og annarra. Hér held ég líka að hv. þingmaður verði að horfa til þess að það er vaxandi vandamál um alla veröldina að 1% ríkasta fólksins er sífellt að safna að sér meiri auði á kostnað hinna sem fátækastir eru. Sannarlega eru eignarskattar meðal fárra tækja sem við getum beitt til að hamla eitthvað á móti þeirri ískyggilegu þróun fyrir almannahag að hinir ríku verði sífellt ríkari og hinir fátæku fátækari.