145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er svolítið rætt eins og núverandi ríkisstjórn sé alls ekki að forgangsraða í þágu þeirra málaflokka sem helst eru gagnrýndir, eins og heilbrigðismál, Landspítali og sérstaklega málefni aldraðra og öryrkja.

Förum örstutt yfir það sem hefur verið gert á tveimur og hálfu ári, þeim tíma sem þessi ríkisstjórn hefur verið við völd. Strax var sett í forgang að draga úr skerðingum sem bótaþegar sættu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Strax sumarið 2013 var afnumin sú regla að lífeyrissjóðir skertu grunnlífeyri. Það var bara nokkrum vikum eftir að sú ríkisstjórn fór frá sem gumar sig nú af því að hafa þennan málaflokk í forgangi. Frítekjumark lífeyrissjóðstekna var hækkað. Víxlverkunarsamkomulag vegna bóta almannatrygginga lífeyrissjóða var framlengt. Skerðingarhlutfall tekjutrygginga var lækkað í 38,35% þann 1. janúar 2014. Skerðingar síðustu ríkisstjórnar hafa því verið afnumdar að nær fullu. Þetta þýðir að bætur eru um 7,4 milljörðum kr. hærri í dag en annars væri. Þetta eru óumdeildar tölur.

Ef við förum síðan aðeins yfir það sem fyrirhugað er að gera á þessu og næsta ári munu bætur hækka um 14,2 milljarða þann 1. janúar 2016. Hækkunin nemur um 9,7%. Inni í þeirri tölu er 3,9 milljarða kr. hækkun vegna launaþróunar á árinu. Það bætist ofan á 4,3 milljarða sem aldraðir og öryrkjar fengu fyrst í janúar 2014, 3% hækkun á undan launþegum. Samtals hækkun bóta aldraðra og öryrkja vegna launaþróunar á árinu 2015 er því 8,2 milljarðar. Ef við tökum hækkun á bótum aldraðra og öryrkja frá janúar 2015 til janúar 2016 verða þetta samtals um 18,5 milljarðar kr. Samanlagt skila aðgerðir á kjörtímabilinu miðað við þetta því að bætur á næsta ári verða 26,8 milljörðum hærri en þær hefðu annars orðið sem fara beint til aldraðra og öryrkja.

Það er mjög erfitt að láta sem ekki sé forgangsraðað í þágu þessa málaflokks. Þurfum við að gera betur? Já, við þurfum að gera betur. Ég held að við séum öll sammála um það. Og við viljum gera betur. Til þess þurfum við eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni auðvitað að huga að því hvernig við byggjum upp velferðarsamfélag; atvinnusköpun og verðmætasköpun í okkar samfélagi þannig að við náum að treysta velferðarsamfélagið, treysta undirstöðurnar. Það þarf svo sem ekki að fara langt aftur í tímann á þingi til að rifja upp hvernig umræðan hefur verið um þann þátt mála. Það er auðvitað mjög ánægjulegt hvernig þróunin hefur verið í raun á atvinnumarkaði hjá okkur. Það er gríðarleg sprengja í ferðaþjónustunni. Margs konar iðnaður er að taka við sér. Sjávarútvegur hefur staðið sæmilega öflugur þó að vissulega séu ákveðin óveðursský við sjóndeildarhringinn á þeim vettvangi. Þróunin hefur verið hreint með ágætum.

Hvernig ætlum við að horfa til framtíðar? Hvernig ætlum við að treysta byggð í landinu, byggja upp traustar stoðir samfélagsins? Það mun gerast í kringum nýtingu á orkuauðlindum okkar. Það er hvergi eins augljóst og hvergi sýnir reynslan okkur það eins skýrt að sú nýting, uppbygging iðnaðar sem er byggður á raforkunýtingu — ég er ekkert endilega að tala um stóriðju svo það sé sérstaklega tekið fram, það er alltaf verið að snúa út úr eins og verið sé að tala um álver í hvern fjörð. Ég hef talað gegn til dæmis álveri fyrir norðan. Ég tel það mjög óraunhæfa hugmynd norður við Skagaströnd bara svo dæmi sé tekið. Fjölbreyttur iðnaður, fjölbreytt atvinnutækifæri úti um land, byggð á nýtingu orkunnar, er það eina sem við getum horft til sem alvörubyggðafestudæmis í framtíðinni. Sjávarútvegur mun ekki spila það hlutverk. Þannig er tækniþróun og framþróun að verða á þeim vettvangi að við sjáum örugglega frekari samþjöppun í fiskvinnslu. Ferðaþjónusta dreifist mismunandi um landið, hún dreifist líka mismunandi yfir árið og þótt hún sé vissulega orðin mjög sterk grein og skipti gríðarlega miklu máli verður hún ekki aðalgrundvöllur byggðafestu úti um hinar dreifðu byggðir. Það gerist með nýtingu orkuauðlindanna. Það gerist með því að við leiðum inn átak í flutningskerfi raforku þannig að hægt sé að tryggja raforku víða um land og skapa ungu fólki með fjölbreytta menntun tækifæri til að búa hvar á landinu sem er.

Átökin hafa staðið um þetta í þinginu. Það eru nákvæmlega þessir flokkar sem gagnrýna okkur núna fyrir að hafa ekki meira á milli handanna eða forgangsraða með öðrum hætti, setja meira í heilbrigðismálin, meira í aldraða og öryrkja og fleiri góð mál, þessir hópar hafa lagt stein í götu okkar þegar kemur að því að reyna að efla stoðir samfélagsins. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér og skoða heildarmyndina þegar farið er yfir þetta.

Svona er staðan hjá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar. Þetta eru skrefin sem búið er að taka og frekari skref eru í vændum. Ég sagði áðan að við gætum gert betur og að við vildum gera betur. Við munum gera betur. Erum við á þeirri vegferð? Já, við erum á þeirri vegferð. Engum þarf að blandast hugur um að það er skýr vilji þessarar ríkisstjórnar að halda áfram á þeirri braut. Það munum við gera með því að styrkja enn frekar tekjustoðir okkar, treysta enn frekar grundvöll samfélagsins og búa þannig um hnútana að kakan stækki, það verði meira til skiptanna, meira til þess að gera betur á hinum ýmsa vettvangi.

En förum aðeins yfir girðinguna hérna fyrir utan og heim til þess fólks sem gagnrýnir okkur hér í dag, heim í Reykjavíkurborg þar sem það ræður öllum ráðum, þar sem það hefur völdin, það sama fólk og gagnrýnir okkur hér. Þegar ég fylgdist með umræðunni hér í gærkvöldi eða í nótt heyrði ég einn hv. þingmann stjórnarandstöðunnar vitna í Björgvin Guðmundsson, fyrrverandi varaþingmann Alþýðuflokksins. (Gripið fram í: Og bæjarfulltrúa.) Og borgarfulltrúa. Ég er hér með pistil frá honum frá því fyrr á þessu ári þar sem hann segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Nokkuð vantar á það í dag, að staða og kjör eldri borgara í Reykjavík séu í það góðu lagi, að borgin geti talist aldursvæn borg. Reykjavíkurborg verður því að taka sig á í málefnum eldri borgara, ætli hún að ná þessu takmarki.“

Hann fjallar um ástandið í málefnum hjúkrunarheimila og svo segir hann, með leyfi forseta:

„Ástandið í heimahjúkrun er heldur ekki nógu gott. Sú starfsemi er stórlega undirmönnuð. … Borgin rekur 17 félagsmiðstöðvar víðs vegar um borgina. Það er af hinu góða. En síðustu árin hafa mál þróast þannig í þessum félagsmiðstöðvum, að Reykjavíkurborg hefur kippt að sér hendinni varðandi fjárveitingar til þessarar starfsemi. Borgin hefur fellt niður greiðslur til leiðbeinenda á ýmsum námskeiðum … Láglaunafólk hrakið frá félagsmiðstöðvum. Gjöld, sem borgin innheimtir af eldri borgurum, eru ekki há. … En láglaunafólk meðal eldri borgara finnur mikið fyrir því, þegar þessi gjöld hækka. Eru mörg dæmi um það, að eldri borgarar hafa hætt í þessu félagsstarfi vegna hækkana á gjaldskrám.“

Svo segir hann í niðurlagi greinarinnar sem er rituð fyrr á þessu ári:

„Borgin yrði að taka sig á í málefnum aldraðra, ef borgin ætlaði að kallast aldursvæn borg.“

Ég get haldið áfram. Þannig fá margir eldri borgarar í Háaleiti, Laugardal og Bústaðahverfi ekki lengur heimsókn frá heimaþjónustu borgarinnar sem staðið hefur þeim til boða einu sinni til tvisvar í mánuði. Það er afleiðing bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis segir þjónustuna geta skipt miklu fyrir fólkið, til að mynda fyrir sjálfsvirðingu þess. Starfsfólkið sé síður en svo ánægt með að þurfa að skerða þjónustuna á þennan hátt en nú sé komið að þolmörkum. Hún bendir reyndar fólki á að svokallaðir róbótar í ryksugu- og skúringaverkefnum gætu leyst fólkið af hólmi. Kannski vill Reykjavíkurborg bara leysa samskiptin við eldri borgara með einhverjum róbótum. Síðan hafði ein eldri kona samband við Reykjavíkurborg út af þessu og henni var vinsamlegast bent á að hafa samband við börnin sín, hún gæti leitað til þeirra með að koma og þrífa heima hjá sér.

Í þjónustukönnun Capacent voru aðeins um 19% ánægð með þjónustu við fatlað fólk og 27% ánægð með þjónustu við eldri borgara í Reykjavíkurborg sem fær harkalega útreið í þessari þjónustukönnun Capacent. Þegar spurt er um þjónustu við barnafjölskyldur, eldri borgara og fatlað fólk lendir Reykjavíkurborg í neðsta sæti í samanburði við 19 stærstu sveitarfélög landsins. Sömuleiðis lendir höfuðborgin í neðsta sæti þegar spurt er um þjónustu grunnskóla, leikskóla, sorphirðu og aðstöðu til íþróttaiðkunar. Þetta er niðurstaða þjónustukönnunar sem byggir á spurningum sem lagðar voru fyrir borgarbúa og íbúa annarra sveitarfélaga. Reykjavíkurborg lendir einnig í neðsta sæti þegar spurt er um þjónustu sveitarfélagsins í heild sinni. Að mati borgarbúa er sú þjónusta sem veitt er í borginni óviðunandi og alls ekki sambærileg við þá þjónustu sem veitt er í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Og nú er það nýjasta að hætt hefur verið við að útvega eldri borgurum í Grafarvogi heitan mat um helgar. Nú geta þau étið það sem úti frýs eða það sem kalt er, ætti maður kannski frekar að segja. Þau fá ekki heitan mat og verða að sjá um að hita hann upp sjálf. Þessu hefur verið mótmælt með undirskriftum.

Þetta er staðan í draumheimi þeirra flokka, Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar, sem stjórna í Reykjavíkurborg, þeirra flokka sem hér halda uppi mikilli gagnrýni á okkur. Þau segjast í öðru orðinu leggja ofuráherslu á þennan málaflokk en mikill tvískinnungur er fólginn í þessu vegna þess að heima hjá þeim, þar sem þau hafa tækifæri til að taka ákvarðanir, til að láta gott af sér leiða, geta forgangsraðað í þágu þessara hópa, eru þessir flokkar einfaldlega með allt niður um sig. Ef við horfum til verka þeirra á þingi á síðasta kjörtímabili, hver er þá trúverðugleiki þess málflutnings sem hér fer fram? Hvernig er hægt að treysta því að ef þessir flokkar væru við völd höguðu þeir sér í samanburði við þau yfirboð sem þeir eru með í gangi núna?

Margt annað kemur upp í hugann þegar farið er yfir stöðu Reykjavíkurborgar. Hv. þm. Robert Marshall sagði í gær að hér ættu sér stað átakastjórnmál. Ég held að þetta séu átakanleg stjórnmál. Þetta er átakanleg umræða. Mér finnst þetta átakanlegur málflutningur. Það má líka rifja upp að í vor var Reykjavíkurborg dæmd í héraðsdómi þar sem henni var óheimilt að synja konu sem er öryrki um sérstakar húsaleigubætur. Hún lét reyna á það fyrir dómstólum — af því að hún forgangsraðar svo í þágu öryrkja. Þetta varð til þess að konan sem er ein af 460 öryrkjum sem leigja af þeim hússjóði sem um ræðir varð ísbrjótur í því að þessir öryrkjar fengju þær húsaleigubætur sem þeim bar. Og svo er talað um trúverðugleika.

Við horfum á flugvallarmálið og allt sem er þar í umræðunni. Hv. þingmenn Pírata tala mikið fyrir opnu og beinu lýðræði. Ég hef ekki heyrt tillögu frá þeim í Reykjavíkurborg um að flugvallarmálið fari til dæmis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef ekki heyrt það. Það er kannski óheppilegt mál.

Það nýjasta núna eru bílastæðahúsin. Nú er Reykjavíkurborg búin að gefast upp á að reka bílastæðahúsin. Ég held, virðulegur forseti, að ef sveitarfélag treystir sér ekki til að reka bílastæðahús ættu hinir sömu ekki að vera við stjórnvölinn og reka svo stórt fyrirtæki sem Reykjavíkurborg er.