145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar vitnað er í árið 2011 og sagt að þáverandi ríkisstjórn hafi gefið hækkanir umfram lög og í tengslum við launahækkanir í samfélaginu, nefndar eingreiðslur og hækkanir, ber að minnast þess og geta þess að það var eftir að skerðingar höfðu orðið og bætur frystar. (KLM: Um þær …) Þetta var til þess að leiðrétta þá aðgerð sem varla gat talist forgangsröðun í þágu þessa hóps á þeim tíma. Á sama tíma fóru þeir stjórnarflokkar sem þá voru við völd í milljarðakostnað við gæluverkefni sín sem sneru meðal annars að heildarendurskoðun á stjórnarskrá landsins (Gripið fram í.) með tilheyrandi kostnaði á þeim tíma og sóttu um aðild að Evrópusambandinu með öllum þeim kostnaði sem það hafði í för með sér. (KLM: Þið opnið nýtt sendiráð núna.) Á sama tíma og menn gældu við gæluverkefnin sín skáru þeir niður þá þjóðfélagshópa sem hér um ræðir. Málflutningurinn er ekki trúverðugur að þessu leyti. Við þurfum að gera betur en það verður samt þannig að einstaklingur með heimilisuppbót mun hafa um 246 þús. kr. á mánuði í laun frá og með áramótum. (KLM: Fyrir skatt.) Við tölum alltaf um laun fyrir skatt. (Forseti hringir.) Á sama tíma verða lágmarkslaunin í landinu 245 þúsund samkvæmt kauptaxta.