145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi inna þingmanninn eftir þeim tilburðum stjórnarmeirihlutans sem mér virðast birtast í annars vegar meðferðinni á umboðsmanni Alþingis og hins vegar í meðferðinni á Ríkisútvarpinu, kannski sérstaklega. Sem kunnugt er tók umboðsmaður Alþingis til umfjöllunar á síðastliðnu ári mál sem var ekki þægilegt fyrir alla í stjórnarmeirihlutanum. Það er auðvitað hlutverk umboðsmanns Alþingis. Það er hans sjálfstæða eftirlitshlutverk og raunar meðal annars það sem forsætisnefnd þingsins á hér að standa vörð um. En það er ekki gert betur en svo að embættið er í tillögunum skorið niður. Eins og sé með einhverjum hætti verið að refsa því fyrir að hafa farið í sjálfstæða vinnu sem leiddi til þeirrar pólitísku niðurstöðu sem við þekkjum. Ég spyr hvort þingmaðurinn telji ekki að við getum treyst því að sameiginleg ályktun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að bæta úr þessu verði að veruleika við breytingar á frumvarpinu og finnst það vera mikilvægt.

Hins vegar er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann hvernig hún metur áhrif þessarar meðferðar á Ríkisútvarpinu. Nú hefur það verið stjórnarmeirihlutanum þyrnir í augum að það væri hlutlaus fjölmiðill og fréttastofa til í landinu. En hvað þýðir það fyrir Ríkisútvarpið að fá lækkun á útvarpsgjaldinu á upp undir 400 milljónir? Þýðir það uppsagnir? Þýðir það verulegan niðurskurð á dagskrá? Hvaða afleiðingar telur hv. þingmaður að þessi meðferð hafi ef þetta stendur svona óbreytt, að menntamálaráðherra kemur frumvarpi sínu hvorki lönd né strönd og nýtur ekki stuðnings eigin ríkisstjórnar?