145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir andsvarið. Ég tek undir með honum varðandi umboðsmann Alþingis. Það er afar mikilvægt að við styrkjum þá stofnun. Þess vegna hefur komið fram hjá hluta minni hlutans, hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, tillaga um að bæta 15 milljónum inn í umboðsmann Alþingis, af því að það er verið að leggja fram 13 millj. kr. niðurskurð á það embætti. Ekki veit ég hvort það er vegna þess að hann komst að ákveðinni niðurstöðu í hinu svokallaða lekamáli eða hvað annað er en það er afar mikilvægt að umboðsmaður geti sinnt frumkvæðisrannsóknum. Þetta er sá sjálfstæði aðili sem ég hef alla vega tilfinningu fyrir að almenningur treysti að sé ekki háður Alþingi eða háður einhverjum stjórnmáladuttlungum eða einhverju slíku heldur sé til þess bær að úrskurða og fólk taki mark á því. En hann þarf að fá fjármuni til að geta haldið áfram. Forustumenn fjárlaganefndar hafa sagt að það sé vegna þess að hann borgi ekki húsaleigu sem þetta sé skorið niður. Það er hins vegar frekar mikil einföldun að halda að þá sé hann vel haldinn og þurfi ekki að reka sig með einhverjum öðrum hætti.

Varðandi RÚV ætla ekki að segja að þetta yrði svanasöngur þess en það er klárt mál að það þarf algera uppstokkun. Við mundum ekki að mínu viti þekkja RÚV á sama hátt og við gerum í dag ef þetta gengur eftir. Ég hef að minnsta kosti miklar áhyggjur af því. Ekki það að þau hafa sýnt gríðarlega aðlögunarhæfni við þann niðurskurð sem þau hafa þurft að takast á við. Vissulega hefur mikið af góðu fólki þurft að hverfa frá (Forseti hringir.) en ég dáist samt að því hvernig þeim hefur tekist fram til þessa.