145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég vildi inna þingmanninn eftir því, vegna þess að hún starfar í fjárlaganefnd og hefur því verið býsna mikið í fjárlagavinnunni, hvort það væru aðrar eftirlitsstofnanir sem ástæða væri til að hafa áhyggjur af við afgreiðslu frumvarpsins eftir 2. umr. Forusta nefndarinnar hefur auðvitað talað um eftirlitsstofnanir eins og þær séu til óþurftar en alveg horft fram hjá niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um mikilvægi þess að efla þvert á móti þær eftirlitsstofnanir sem við höfum.

Ég vildi líka spyrja þingmanninn um þessa stærðargráðu í niðurskurði hjá Ríkisútvarpinu, 379 milljónir. Er það ekki nokkuð rétt með farið hjá mér að eitt stöðugildi hjá hinu opinbera sé um 10 milljónir þannig að þetta gætu verið upp undir 40 stöðugildi ef þetta væri bara tekið út í mannaflanum, eða er þetta reksturinn á Rás 1 eða íþróttirnar? Hefur útvarpið bent á einhverja þetta stóra liði sem það gæti skorið niður ef í það fer?

Að lokum kannski þetta: Er ekki rétt munað hjá mér að hæstv. fjármálaráðherra hafi sérstaklega komið fyrir fjárlaganefnd á opnum fundi á haustdögum og lýst því yfir að menntamálaráðherra mundi flytja frumvarp um óbreytt útvarpsgjald og ríkisstjórnin afgreiða það inn í þingið? Er þetta sem sagt þannig að fjármálaráðherra sé gagnvart RÚV að ganga á bak orða sinna?