145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður hefur setið undir því í þessari umræðu að við vinstri flokkarnir höfum meira og minna verið í því að skerða bætur eða lífeyri eldri borgara og öryrkja, að við höfum staðið fyrir einhverjum hryllingi í þeim málaflokki og að í samanburði við það allt saman sé nú verið að slá einhver heimsmet, söguleg met í hækkunum til þessara hópa með 9,1% hækkun.

Ég er með þróunina fyrir framan mig í töflu sem er að finna í nefndaráliti 1. minni hluta, frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur — og nota bene, þessi tafla er frá Tryggingastofnun ríkisins — þar sem fram kemur að á árunum 2008–2009 hafi grunnlífeyrir hækkað um 30% á milli ára. Það voru ýmsar aðgerðir sem leiddu til þessa, eins og afnám makatengingar og ýmislegt annað. En þetta sýnir í hnotskurn hvað það er sem við jafnaðarmenn gerum þegar vel árar og hvar forgangur okkar liggur; úr 119 þús. kr. fyrir þá sem búa með öðrum upp í 157 þús. kr. á einu ári. Síðan fóru þeir sem búa einir úr 144 þús. kr. upp í 184 þús. kr. Þetta voru verk jafnaðarmanna í félagsmálaráðuneytinu á sínum tíma.

Þegar menn tala um heimsmet með því sem er í gangi hér … (Gripið fram í.) — Ég held að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að biðja um orðið og koma hér upp og ræða við okkur eins og við höfum beðið hana um í staðinn fyrir að vera að gjamma inn í ræðu mína ef henni líður illa undir þessum tölum og staðreyndum. 30% hækkun milli ára. Það sýndum við í verki.

Menn skulu því fara varlega í umræðum um heimsmet eða önnur met í einhverju sögulegu samhengi í hækkunum nú um áramótin (Forseti hringir.) og koma í stað þess í ræðustól (Forseti hringir.) og segja eldri borgurum og öryrkjum að þau muni fá sambærilegar hækkanir og aðrir í þessu landi.