145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún talaði aðeins um skattapólitíkina í upphafi sinnar ræðu. Við höfum verið að fara aðeins yfir hana, sérstaklega með tilliti til framlaga til velferðarmála og annars. Það hefur komið á daginn að þessi ríkisstjórn er að skera meira niður af vergri landsframleiðslu eða allt að 2% á meðan ríkisstjórnin á síðasta kjörtímabili skar niður um 1,5% af vergri landsframleiðslu sem okkur þótti þó of mikið og sérstaklega þegar kom að heilbrigðismálum. Ég velti fyrir mér tekjuskattinum eða bara skattamálum yfirleitt. Af því að við erum að tala um samhengi hlutanna þá hefur ríkisstjórnin hækkað matarskatt og félags- og húsnæðismálaráðherra talar gjarnan um margvíslegar annars konar aðrar aðgerðir sem hún hyggst framkvæma. Sumar hafa kannski komið að einhverju leyti fram, aðrar ekki. Við afnámum sykurskattinn og ýmislegt fleira sem hefur orðið til þess að þessir hópar hafa það meira skítt en þeir höfðu áður, m.a. vegna þessarar skattapólitíkur, einnig vegna þess að skatturinn lækkaði á miðjuþrepið en ekki það neðsta.

Mig langaði til þess að velta upp ákveðnum hlutum varðandi eldri borgara, og öryrkja þó sérstaklega, en báðir hópar nýta sér t.d. hjálpartæki og lyf. Þar hefur komið fram ósk um að virðisaukaskattur verði afnuminn af lyfjum sérstaklega, en jafnvel líka af hjálpartækjum eða færður niður í lægra skattþrepið. Mig langar að taka þessa vangaveltu inn af því að eins og hv. þingmaður og við höfum talað um þá er hægt að (Forseti hringir.) taka inn mun meiri tekjur en gert er á fleiri vígstöðvum, mun meiri en ríkisstjórnin leggur til, m.a. til að mæta þessum þörfum.