145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Ég hjó eftir því hjá hv. þingmanni að hún talaði um að eitt af stærstu efnahagsvandamálunum væru of lág laun, ef ég skildi rétt. Mig langar gjarnan að ræða það aðeins betur vegna þess að ég hef aðeins öðruvísi sýn á það. Þótt ég vilji auðvitað að fólk fái almennilega borgað almennt hefur mín sýn á vandamál Íslands efnahagslega aðallega verið íslenska krónan, sér í lagi hvað launahækkanir geta gert. Þær geta leitt af sér verðbólgu sem er að mínu mati afleiðing þess að við búum í agnarsmáu hagkerfi sem hefur mjög lítinn gjaldeyri, sem er notaður á mjög afmörkuðu litlu svæði af mjög fáum. Það hef ég litið á sem helsta vandamálið.

Mér þykir sérstaklega áhugavert það sem hv. þingmaður sagði í samhengi við tryggingagjaldið. Ég hef lengi velt fyrir mér hvers vegna tryggingagjaldið sé ekki einfaldlega hið sama í einhverjum beinum útreiknuðum tengslum við atvinnuleysistölur á hverjum tíma. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna það er sjálfstæð ákvörðun. Við vitum alveg að forsendan fyrir tryggingagjaldinu er atvinnuleysi, þannig hef ég alla vega skilið það og hv. þingmaður leiðréttir mig kannski ef ég fer með rangt mál. Það er ýmislegt svona sem ég átta mig ekki á hvers vegna við erum að taka pólitískar ákvarðanir um þegar forsendur ættu í raun að liggja fyrir í stærðfræðinni, í þeim tölum sem við höfum fyrir hendi.

Ég hefði áhuga á að heyra meira hvað hv. þingmaður átti við og hvort ég hef skilið hann rétt í sambandi við launin, sér í lagi hvernig þetta tvennt hangir saman, ef lág laun eru aðalvandinn og tryggingagjaldið, eins og ég skildi þetta, er leið til þess að geta aukið svigrúm til launahækkana. Ef tryggingagjaldið væri ákvarðað einfaldlega út frá einhverjum hagtölum eins og atvinnuleysi, telur hv. þingmaður að það hefði áhrif á viðhorf hennar til lágra launa og þátt þess í efnahagsvandræðum Íslands?