145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tryggingagjaldið er samsett úr nokkrum hlutum og eitt af því er það sem rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þegar hrunið varð var tryggingagjaldið hækkað verulega og ef ég man rétt var það gert í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins sem má segja að borgi þetta, vegna þess að tryggingagjaldið er launatengdur skattur. Síðan hefur það gerst, ég er ekki með þetta fyrir framan mig en ég held að ég muni það rétt að tryggingagjaldið sé enn þá 2 prósentustigum hærra núna en það var áður en það byrjaði að hækka, þó hefur það lækkað eitthvað pínulítið. Málið er að hlutfallið sem rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð hefur lækkað, en ríkið er búið að taka það inn í sína sjóði. Þannig að tryggingagjaldið er samsett úr fleiri þáttum en því sem rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð. Eftir að atvinnuleysi hefur lækkað og ekki þarf jafn mikla peninga í Atvinnuleysistryggingasjóð hefur ríkið tekið stærri hluta af því inn í það sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson mundi kalla ríkishít. Það hefur sem sagt tekið það inn í stóra sjóðinn, en ég vil ekki kalla það ríkishít. Það hefur líka gerst til dæmis að núna fer minni hluti af tryggingagjaldinu í (Forseti hringir.) Fæðingarorlofssjóð en átti að gera. Samt sem áður er ekkert verið að gera til að laga fæðingarorlof.