145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs eiginlega til að vitna gegn ummælum hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar í þá veru að sá þingmaður sem nú lauk máli sínu hafi í fyrri ræðum ekki talað um fjárlögin. Ef það er einhver þingmaður sem hefur talað eins rækilega um fjárlögin í þessari umræðu og verða má þá er það hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Hún hefur staðnæmst sérstaklega við málefni öryrkja og aldraðra þar sem stjórnarandstaðan er með skýrar breytingartillögur, var með það við fjáraukann, 6,6 milljarða, og tæplega 5,5 milljarða inn í næsta ár í fjárlögunum. Það er málefni fjárlaganna og við það hefur hv. þingmaður staðnæmst sérstaklega. Hún hefur einnig vikið sérstaklega að málefnum heilbrigðiskerfisins þar sem forráðamenn Landspítalans fullyrða að það vanti að minnsta kosti 3 milljarða upp á til að stofnunin geti rekist á sómasamlegan hátt. Það hefur þingmaðurinn fjallað sérstaklega um.

En ég vil beina spurningu til hv. þingmanns sem snýr að umboðsmanni Alþingis. Hv. þingmaður var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þekkir mjög vel starfsemi umboðsmanns Alþingis. Hún sagði hér áðan að að sumu leyti hefði hún breytt um skoðun hvað varðar áherslur innan embættisins. Mig langar til að biðja þingmanninn að skýra ögn nánar hvað það er sem hún á við með þeim yfirlýsingum. Ég veit að hún gerði það í máli sínu, en mér fyndist fróðlegt að fá það skýrar fram.