145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einfaldlega þannig að umræðan snerist um að styrkja þyrfti umboðsmann sérstaklega til þess að hann gæti sinnt frumkvæðisathugunum. Ég var þeirrar skoðunar að það þyrfti að styrkja embætti umboðsmanns. En ég sagði hins vegar: Ég tel enga ástæðu til að styrkja hann sérstaklega út af þessum frumkvæðisathugunum vegna þess að ég tel að umboðsmaður hafi forgangsraðað rétt. Ég tel að embætti umboðsmanns Alþingis sé til fyrirmyndar, bæði í því hvernig hann hélt sig alltaf innan fjárheimilda á síðasta kjörtímabili, sem var mjög erfitt, og hvernig hann forgangsraðar þar.

Síðan hefur það hins vegar gerst að augu mín hafa opnast fyrir því hversu gífurlega áríðandi þetta frumkvæðisathugunardæmi er, til dæmis eins og sú frumkvæðisathugun sem hann fór í núna á síðasta ári, sem var náttúrlega söguleg. Þess vegna segi ég bara: Jú, þetta var bara vitlaust hjá þér, kerling. Það þarf að leggja sérstaka áherslu á það og kannski líka vegna þess að þessi maður verður ekki alltaf umboðsmaður Alþingis, þess vegna þarf Alþingi kannski að leggja sérstaka áherslu á að (Forseti hringir.) það vilji að þetta hlutverk sé skýrt hjá embættinu.